Innlent

Fólk hvatt til að huga að lausamunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Von er á sterkum vindhviðum víða um land í dag.
Von er á sterkum vindhviðum víða um land í dag. Vísir/Vilhelm

Veðurfræðingar búast við allt að 35 til 40 m/s vindhviðum á sunnan- og vestanverðu landinu í dag. Búið er að gefa út gular viðvaranir vegna hvassrar suðvestanáttar sem skella mun á seinni partinn.

Um er að ræða leifar fellibyljarins Larrys sem fór yfir Karíbahafseyjar í byrjun mánaðar og norður austurströnd Bandaríkjanna og Kanada.

Í tilkynningu frá Veðurvaktinni, sem heldur úti Blika.is, segir að von sé á áðurnefndum hviðum frá hádegi á norðanverðu Snæfellsnesi. Um þrjú leytið megi búast við þeim við Hafnarfjall, á Kjalarnesi og í Hvalfirði. Vindurinn eigi að vera í hámarki milli sex og miðnættis.

Þar að auki megi búast við úrhellisrigningu á Reykjanesbrautinni.

Á vef Veðurstofu Íslands segir að fólk ætti að ganga frá munum sem geti fokið. Þá segir þar einnig að vindurinn verði hvað mestur við fjöll og hann geti verið varasamur og þá sérstaklega fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi.

Sjá einnig: Gul viðvörun í gildi víða næstu daga

Þá megi búast mikilli rigningu og vatnavöxtum í ám og lækjum. Einnig verði aukin hætta á skriðuföllum og grjótshruni.

Fyrsti í trampolíni?

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti í morgun Facebookfærslu þar sem spurt er hvort sá fyrsti í trampolíni sé í dag. Lögreglan mæli með því að lausir munir utandyra séu tryggðir fyrir leiðindaveðrið í kvöld.

Veðurhorfur á landinu næstu daga, samkvæmt Veðurstofu Íslands.

Á þriðjudag:

Sunnan 8-15 m/s og rigning eða skúrir, en yfirleitt þurrt N- og A-lands. Hiti 8 til 14 stig, hlýjast á NA-landi.

Á miðvikudag:

Suðvestan 5-10 og dálitlar skúrir, en þurrt og bjart NA- og A-lands. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag:

Suðaustanátt og víða rigning, en úrkomulítið NA-til. Hiti 10 til 16 stig.

Á föstudag:

Suðlæg eða breytileg átt og skúrir, en úrkomuminna á Norðaustanverðu landinu.

Á laugardag:

Útlit fyrir breytilega átt og lítilsháttar skúrir. Heldur kólnandi veður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×