Fótbolti

Síðast tók þjálfari Þjóðverja æðiskast á Íslandi og nú fæst hér hveitibjór

Sindri Sverrisson skrifar
Rudi Völler í viðtalinu fræga við Waldemar Hartmann sem sat í þægilegum stól að mati Völlers.
Rudi Völler í viðtalinu fræga við Waldemar Hartmann sem sat í þægilegum stól að mati Völlers. Getty/skjáskot

Þegar Þjóðverjar hugsa til Íslands og fótbolta þá hugsa þeir um Rudi Völler að hella úr skálum reiði sinnar og láta fjölmiðlamenn heyra það, eftir markalaust jafntefli á Laugardalsvelli árið 2003.

Þetta sagði þýskur blaðamaður á blaðamannafundi Hansi Flick, núverandi landsliðsþjálfara Þýskalands, í gær.

Völler, sem var landsliðsþjálfari Þýskalands á árunum 2000-2004, var ekki þekktur fyrir að missa stjórn á skapi sínu. Hann brást hins vegar reiður við gagnrýni á spilamennsku Þjóðverja á Laugardalsvelli fyrir átján árum.

Völler sakaði sjónvarpsmann sem hann ræddi við, Waldemar Hartmann, meðal annars um að sitja bara í þægindum á sínum stól, eftir að hafa drukkið þrjá hveitibjóra, og láta eins og það væri ekkert mál að vinna Ísland 5-0. Þjálfaranum var reyndar strax bent á það að hveitibjór fengist ekki á Íslandi og baðst hann afsökunar á þeim ummælum. 

Hundrað manna sjónvarpsher Þjóðverja sem nú er staddur hér á landi getur aftur á móti pantað sér hveitibjór kjósi hann svo.

„Get ekki hlustað á þetta lengur“

Völler stóð hins vegar við önnur ummæli en hann hafði hraunað yfir tvo sjónvarpsmenn; fyrrverandi landsliðsmanninn Günter Netzer og Gerhard Delling. Blaðamaðurinn Karl Blöndal sá viðtalið og þýddi hluta þess í grein í Morgunblaðinu á sínum tíma:

„Ég hafna því að alltaf þurfi að draga allt í gegnum skítinn, það er síðasta sort. Þegar við erum komnir á botninn segja þeir að við getum fallið enn neðar. Þetta er kjaftæði, ég get ekki hlustað á þetta lengur,“ hafði Karl meðal annars eftir Völler og benti á að þjálfaranum hefði verið heitt í hamsi og hvað eftir annað líkt greiningu þeirra Netzers og Dellings við „skít“.

Eftir jafnteflið á Laugardalsvelli átti Þýskaland á hættu að missa af sæti á EM 2004 en með því að vinna svo Skotland og Ísland á heimavelli enduðu Þjóðverjar efstir í riðlinum.

„Held að ég myndi aldrei gera svona hluti“

Flick kvaðst á blaðamannafundinum í gær muna illa eftir viðtalinu við Völler. Aðspurður hvort hann væri týpan í það að láta sína leikmenn heyra það, eða fjölmiðlamenn, svaraði Flick:

„Ég er þjálfari og ef ég er óánægður þá segi ég mínu liði hvers ég vænti af þeim. Í slíkum aðstæðum þarf ég að tjá mig í ákveðnum tóni og það er bara skylda þjálfara. Þið getið haldið að ég sé „góður gæi“ en ég kann líka að beita röddinni öðruvísi til að koma skilaboðum áleiðis. Það veltur alltaf á aðstæðum.

Fjölmiðlamenn hafa aðrar forsendur og öðrum skyldum að gegna en við. Ég held að ég myndi aldrei gera hlutina svona gagnvart þeim.“


Tengdar fréttir

Herra Áreiðanlegur og ferskur Vindur heiðraðir í Dalnum í dag

Tveir af allra dyggustu þjónum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta frá upphafi verða heiðraðir á Laugardalsvelli í kvöld fyrir að ná að spila 100 A-landsleiki. Þeir gætu báðir bætt leikjamet Rúnars Kristinssonar áður en árið er á enda.

Jóhann Berg klár í slaginn gegn Þjóðverjum

Íslenska karlandsliðið í knattspyrnu saknaði Jóhanns Bergs Guðmundssonar sárlega í leiknum gegn Norður-Makedóníu en mun endurheimta hann í leiknum gegn Þýskalandi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×