Erlent

Telja að brennuvargur hafi kveikt gróðurelda í Galisíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Slökkviliðsmaður dælir vatni á brennandi skóg við Ribas de Sil í Galisíu.
Slökkviliðsmaður dælir vatni á brennandi skóg við Ribas de Sil í Galisíu. Vísir/EPA

Yfirvöld í Galisíu á norðvestanverðum Spáni telja að einhver hafi vísvitandi tendrað gróðurelda sem geisa nú í sjálfstjórnarhéraðinu. Eldurinn brennur enn stjórnlaust þrátt fyrir að fjöldi slökkviliðsmanna berjist við hann með hjálp flugvéla og þyrla.

Fyrst varð vart við eldinn nærri smábænum Ribas de Sil síðdegis í gær. Vegum og járnbrautarsporum var lokað vegna mikils reyks sem lagði frá eldinum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Manuel Rodríguez, umhverfisstjóri á svæðinu, sagði fjölmiðum í dag að eldurinn hafi klárlega verið kveiktur vísvitandi. Rannsakendur hafi fundið merki um að eldurinn hafi kviknað á nokkrum stöðum samtímis.

„Hver sá sem gerði þetta vissi fullvel að þetta ætti eftir að valda miklu tjóni,“ sagði Rodríguez.

Nú þegar hafa um þúsund hektarar lands orðið eldinum að bráð. Íbúar í þorpinu Rairos voru varaðir við því að eldurinn gæti náð þangað en ekki er talið að hús þar séu í hættu að svo stöddu.

Neyðarsveitir spænska hersins sendu liðsauka til að berjast við eldinn. Nú reyna 49 teymi slökkviliðsmanna, átta flugvélar og fjórtán þyrlur að ráða niðurlögum hans. Heitt og þurrt veður hafa torveldað slökkvistarfið en auk þess lágu fjarskipti niðri í gærkvöldi.

Gróðureldar hafa nú brunnið á meira en 74.200 hekturum á Spáni á þessu ári. Það er meira en meðaltal síðustu tíu ára en töluvert frá þeim 190.000 hekturum sem brunnu metárið 2012. Sjö af tíu hlýjustu árum frá upphafi mælingar á Spáni hafa orðið síðasta áratuginn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×