Erlent

Hvít­rúss­neskir stjórnar­and­­­stæðingar fangelsaðir í ára­tug

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Znak og Kólesníkóva við dómsuppkvaðningu. Þau létu þunga dóma ekki draga sig niður og brostu í myndavélarnar.
Znak og Kólesníkóva við dómsuppkvaðningu. Þau létu þunga dóma ekki draga sig niður og brostu í myndavélarnar. Getty/Stringer

Tveir áberandi stjórnarandstæðingar í Hvíta-Rússlandi, sem mótmæltu umdeildum forsetakosningum harðlega, hafa verið dæmdir í margra ára fangelsi fyrir að hafa ógnað þjóðaröryggi og reynt að ræna völdum.

Stjórnarandstæðingurinn Maria Kólesníkóva hefur verið dæmd í ellefu ára fangelsi og lögmaðurinn Maxim Znak hefur verið dæmdur í tíu ára fangelsi. Þau voru bæði meðlimir í sérstöku samhæfingarráði stjórnarandstöðunnar. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Ráðið var stofnað af forsetaframbjóðandanum Svetlönu Tíkanovskaju eftir að niðurstöður forsetakosninganna í Hvíta-Rússlandi lágu fyrir í fyrra. Alexander Lúkasjenka bar sigur úr bítum í forsetakosningunum, þó svo að margir telji að hann hafi beitt víðtæku kosningasvindli til að koma í veg fyrir að hann missti völd, eftir 26 ár á valdastóli.

Tvímenningarnir voru handteknir í fyrra vegna þátttöku sinnar í mótmælum gegn forsetanum. Samhæfingarráðið og meðlimir þess hefur verið sakað um að hafa reynt að fremja valdarán.

Mál Kólesníkóvu og Znaks voru tekin fyrir af dómstóli í höfuðborginni Mínsk í dag, mánudag, þar sem þau voru sakfelld meðal annars fyrir öfgahyggju, tilraun til valdaráns og fyrir að hafa ógnað þjóðaröryggi.

Þau neituðu bæði sök í öllum ákæruliðum og lýstu því yfir að málsmeðferðin hafi verið óréttmæt. Lögmenn þeirra hafa þegar tilkynnt að dómnum verði áfrýjað.

Mótmælin vegna forsetakosninganna stóðu yfir mánuðum saman, en bæði Bandaríkin, Bretland og Evrópusambandið hafa fordæmt niðurstöður kosninganna. Tugir þúsunda mótmælenda voru handteknir og margir voru pyntaðir í haldi lögreglu, á meðan Lúkasjenka, sem hefur verið við völd síðan 1994, reyndi að kveða mótmælin niður.

Aðgerðasinnar hafa lýst því yfir að allt að 650 pólitískir fangar séu í haldi stjórnvalda, þar á meðal aðgerðasinnar og blaðamenn.


Tengdar fréttir

Ko­lesni­kova sögð í haldi landa­mæra­varða

Ríkisfjölmiðlar í Hvíta-Rússlandi segja að stjórnarandstæðingurinn Maria Kolesnikova, sem var numin á brott af grímuklæddum mönnum í gær, sé nú í haldi á landamærunum að Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×