Enski boltinn

Håland enn í á­formum Man United þrátt fyrir komu Ron­aldo

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manchester United vill fá Erling Braut Håland í sínar raðir næsta sumar.
Manchester United vill fá Erling Braut Håland í sínar raðir næsta sumar. Alex Gottschalk/Getty Images

Endurkoma Cristiano Ronaldo til Manchester United hefur ekki breytt áformum félagsins varðandi kaup á Erling Braut Håland sumarið 2022.

Þrátt fyrir að Man United hafi nokkuð óvænt sótt Cristiano Ronaldo undir lok félagaskiptagluggans frá Juventus breytir því ekki að Erling Braut Håland er enn aðalskotmark liðsins næsta sumar samkvæmt heimildum íþróttamiðilsins ESPN.

Næsta sumar verður Håland fyrir „litlar“ 75 milljónir evra vegna klásúlu í samningi hans við Borussia Dortmund. Talið er að Manchester-liðin, Real Madríd, Bayern München og París Saint-Germain muni öll bjóða í leikmanninn.

Heimildir ESPN herma einnig að kaupin á Ronaldo breyti áformum félagsins ekki þó svo að Ronaldo hafi ekki verið í sumaráætlunum Man Utd. Portúgalinn kostar félagið 15 milljónir evra og svo átta til viðbótar á næstu fimm árum.

Þó ekki sé að ræða um háa fjárhæð miðað við hvað leikmenn kosta í dag þá verður Ronaldo launahæsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar jafnvel þó að hann hafi tekið á sig launalækkun ef miðað er við launin sem hann var með hjá Juventus.

Þó svo að Ronaldo verði að öllum líkindum nær eingöngu notaður sem fremsti maður þá stefnir Solskjær enn á að fá landa sinn Håland á Old Trafford. Hann var nálægt því þegar hann fór til Dortmund frá FC Salzburg.

Samband þeirra tveggja ku enn vera nokkuð gott. Solskjær þjálfaði Håland hjá Molde á sínum tíma og er talið að það skipti sköpum í viðræðum Man Utd við leikmanninn og umboðsmann hans, Mino Raiola.

Eins undarlegt og sumarið hefur verið er varðar félagaskipti gæti vel við að sumarið 2022 verði engu síðra. Þá má reikna með að Kylian Mbappé fari frítt til Real Madríd, Paul Pogba rennur út á samningi hjá Man Utd og öll stórlið Evrópu munu reyna sannfæra Håland um að ganga í sínar raðir.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.