Innlent

Arnþrúður og Reynir mætast í Hæstarétti

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
reynirarnthrudur

Hæstiréttur hefur fallist á málskotsbeiðni Reynis Traustasonar, ritstjóra Mannlífs í máli hans gegn Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpskonu. Reynir fær því að áfrýja dómi Landsréttar í málinu.

Málið má rekja til þess að Reynir fór fram á að þrenn ummæli sem Arnþrúður hafði látið falla í útvarpsþætti á útvarpsstöð sinni, Útvarpi Sögu, yrðu dæmd dauð og ómerk auk þess sem hann gerði kröfu um 1,5 milljón í miskabætur.

Reynir hafði betur í málinu fyrir héraðsdómi þar sem tvenn ummæli Arnþrúðar voru dæmd dauð og ómerk, auk þess sem Arnþrúði var gert að greiða 300 þúsund krónur í miskabætur.

Arnþrúður áfrýjaði til Landsréttar sem sneri dómi héraðsdóms við. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að Arnrþrúður væri saklaus um að hafa látið meiðyrði falla um ritstjórann.

Á vef Hæstaréttar má hins vegar sjá að Reynir óskaði eftir því að skjóta málinu til Hæstaréttar, og fallist var á málskotsbeiðni hans í gær. Mun Hæstiréttur því taka málið fyrir.

Heldur lögmaður Reynis því fram að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Dómurinn hafi lagt rangt mat á ýmis lykilatriði í málinu. Þá standist ekki sú niðurstaða Landsréttar að Reynir njóti minni réttar til friðhelgi einkalífs í málinu, sökum þess að honum hafi ítrekað verið stefnt fyrir dóm af öðrum aðilum.

Auk þess hafi Landsréttur ekki rökstudd sérstaklega niðurstöðu sína um að ummælin teldust gildisdómar.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að líta verði svo á að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á, einkum um mörk gildisdóma og staðhæfinga um staðreyndir. Var beiðnin því samþykkt.


Tengdar fréttir

Arnþrúður dæmd til að greiða Reyni 300 þúsund krónur

Arnþrúður Karldóttir útvarpsstjóri var nú rétt í þessu fundin sek um meiðyrði. Ummæli sem hún lét falla í þætti sínum á Útvarpi Sögu voru dæmd dauð og ómerk og var henni gert að greiða 300 þúsund krónur í miskabætur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.