Innlent

Gripinn með kíló af kókaíni í ferðatöskunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fíkniefnin fundust falin í botni ferðatösku sem maðurinn hafði meðferðis.
Fíkniefnin fundust falin í botni ferðatösku sem maðurinn hafði meðferðis. Vísir/Jóhann K.

Þýsk-rússneskur karlmaður hefur verið dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi hér á landi fyrir innflutning á rétt tæpu kílói af kókaíni. Maðurinn játaði sök þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness.

Maðurinn var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 993,66 grömmum af kókaíni ætluðu til sölu hér á landi í ágóðaskyni. Ef miðað er við verðkönnum SÁÁ á götuvirði fíkniefna, sem síðast var gerð í mars á síðasta ári, má ætla að götuvirði kókaínsins sé rúmar tólf milljónir króna.

Flaug maðurinn hingað til lands þann 12. júní síðastliðinn frá Amsterdam í Hollandi. Fíkniefnin reyndust falin í botni ferðatösku sem maðurinn hafði meðferðis við komuna til landsins.

Var maðurinn gripinn við komuna til landsins og úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir að hann flaug hingað til lands.

Við þingfestingu málsins játaði maðurinn sök en í dómi héraðsdóms kemur fram að engin gögn liggi fyrir um að hann hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Var maðurinn dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi, auk þess sem að fíkniefnin voru gerð upptæk.

Þá þarf hann einnig að greiða málskostnað vegna málsins, alls um 1,2 milljónir króna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.