Erlent

Barn lést þegar eldflaug var skotið við flugvöllinn í Kabúl

Kjartan Kjartansson skrifar
Liðsmenn talibana standa vörð við flugvöllinn í Kabúl. Þeir hafa tekið völdin í borginni og bíða aðeins eftir að Bandaríkjamenn og bandalagsþjóðir þeirra yfirgefi landið endanlega á þriðjudag.
Liðsmenn talibana standa vörð við flugvöllinn í Kabúl. Þeir hafa tekið völdin í borginni og bíða aðeins eftir að Bandaríkjamenn og bandalagsþjóðir þeirra yfirgefi landið endanlega á þriðjudag. AP/Wali Sabawoon

Lögreglustjóri í Afganistan fullyrðir að barn hafi látist þegar eldflaug var skotið á hús í hverfi norðvestur af flugvellinum í Kabúl í dag. Talibanar segja að loftárás Bandaríkjahers hafi stöðvað sjálfsmorðsprengjutilræðismann.

Takmarkaðar fregnir hafa borist af sprengingunni sem varð barninu að bana og ekki er ljóst hvort að hún tengist loftárás Bandaríkjahers. Breska ríkisútvarpið BBC segir að mikill hvellur hafi heyrst við flugvöllinn sem var vettvangur blóðbaðs á fimmtudag þegar liðsmaður Ríkis íslams sprengdi sig í loft upp og varð um 180 manns að bana.

AP-fréttastofan hefur eftir Rashid, lögreglustjóra í Kabúl, að eldflaugin hafi lent á byggingu í hverfi í nágrenni flugvallarins og að barn hafi látið lífið.

Bandaríkjaher svaraði hryðjuverkaárásinni á fimmtudag með því að fella tvo liðsmenn Ríkis íslams í drónaárás á aðfaranótt laugardags. Í kjölfarið vöruðu bandarísk yfirvöld við því að hætta væri á frekari hryðjuverkum í Kabúl á meðan Bandaríkin og aðrar vestrænar þjóðir ljúka brottflutningi fólks.

Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildum sínum innan Bandaríkjastjórnar að önnur hernaðaraðgerð hafi átt sér stað gegn liðsmönnum Ríkis íslams í dag, að þessu sinni í Kabúl.

Talsmaður talibana fullyrðir að Bandaríkjaher hafi stöðvað sjálfsmorðsárásarmann í farartæki sem hafi ætlað að ráðast á flugvöllinn. Bifreiðin hafi verið full að sprengiefni.


Tengdar fréttir

Telja miklar líkur á annarri hryðjuverkaárás

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir mjög líklegt að reynt verði að fremja aðra hryðjuverkaárás í Kabúl á næstu sólarhringum. Hann boðar áframhaldandi loftárásir á Ríki íslams sem lýsti yfir ábyrgð á sjálfsmorðssprengjuárásinni sem felldi á annað hundrað manns á fimmtudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×