Erlent

Delta tvöfaldaði líkur á sjúkrahúsinnlögnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Færanleg bólusetningamiðstöð í London. Búið er að bólusetja stóran hluta íbúa Bretlands gegn kórónuveirunni en betur má ef duga skal.
Færanleg bólusetningamiðstöð í London. Búið er að bólusetja stóran hluta íbúa Bretlands gegn kórónuveirunni en betur má ef duga skal. Vísir/EPA

Fólk sem smitaðist af delta-afbrigði kórónuveirunnar var tvöfalt líklegra til að þurfa að leggjast inn á sjúkrahús en þeir sem fengu alfa-afbrigðið sem var algengast við upphafi faraldursins í Bretlandi. 

Í rannsókn sem var gerð á fleiri en 43.300 manns sem veiktust af Covid-19 frá mars til maí á þessu ári þegar bæði alfa og delta afbrigðin voru útbreidd á Bretlandi kom í ljós að hærra hlutfall þeirra sem smituðust af delta-afbrigðinu (2,3%) þurfti að leggjast inn á sjúkrahús en þeirra sem smituðust af alfa (2,2%).

Þegar tekið var tillit til aldurs, kyns og þjóðar uppruna þeirra smituðu reyndust þeir sem smituðust af delta tvöfalt líklegri til að þurfa að leggjast inn á sjúkrahús en þeir sem smituðust af alfa. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í læknaritinu Lancet.

Nær öll tilfelli kórónuveirusmita sem greinast á Bretlandi um þessar mundir eru vegna delta-afbrigðisins.

Sérfræðingar segja breska ríkisútvarpinu BBC að niðurstöðurnar undirstriki enn mikilvægi þess að fólk láti bólusetja sig gegn veirunni. Bóluefnin dragi verulegur úr hættunni á alvarlegum veikindum af völdum beggja afbrigða veirunnar.

Um 88% fólks sem er sextán ára og eldra á Bretlandi hefur fengið að minnsta kosti einn skammt af  bóluefni og um 78% hafa verið fullbólusett.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×