Enski boltinn

Ron­aldo hefur fengið samningstilboð frá Manchester United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cristiano Ronaldo á Evrópumótinu í sumar.
Cristiano Ronaldo á Evrópumótinu í sumar. Robert Michael/Getty Images

Hlutirnir gerast hratt á gervihnattaröld. Í gær var staðfest að Cristiano Ronaldo vildi yfirgefa ítalska félagið Juventus. Í kjölfarið bárust fregnir að hann væri á leið til Manchester City en nú stefnir allt í að Portúgalinn sé á leiðinni „heim“ á Old Trafford. 

Það stefnir í að hinn 36 ára gamli Cristiano Ronaldo sé á leiðinni til Manchester United á nýjan leik. Eftir að hafa ákveðið að yfirgefa Juventus virtist sem Ronaldo væri á leið í ljósbláa hluta Manchester-borgar en nú hefur dæmið heldur betur snúist við.

Sir Alex Ferguson, fyrrum þjálfari Ronaldo hjá Man Utd, ku hafa hringt í kappann í morgunsárið og sannfærði Skotinn Ronaldo um að nú væri rétti tíminn til að klæðast rauðri treyju Manchester United á nýjan leik.

Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Manchester United, gaf Ronaldo undir fótinn á blaðamannafundi sínum í dag er hann var spurður út í mögulega endurkomu Portúgalans. 

„Við höfum alltaf verið í góðu sambandi. Bruno [Fernandes] hefur líka rætt við hann og hann veit hvað okkur finnst um hann. Ef hann fer einhvern tímann frá Juventus veit hann að við erum hér,“ sagði Solskjær.

Hlutirnir hafa gerst hratt á undanförnum mínútum og virðist aðeins tímaspursmál hvenær Ronaldo verður tilkynntur sem leikmaður Manchester United. Stærsta spurningin er hvort Edinson Cavani verði tilbúinn að láta treyju númer 7 af hendi þegar Ronaldo mætir.

Nú rétt í þessu var staðfest að Ronaldo hafi fengið samningstilboð upp á 25 milljónir evra frá Manchester United. Um er að ræða tveggja ára samning. Samþykki Ronaldo kaup og kjör þar Man Utd að borga Juventus svipaða upphæð og þá ætti allt að vera klappað og klárt.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×