Enski boltinn

Horfa til Eng­lands ef Mbappé fer til Madrídar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Richarlison fagnar fyrsta marki Everton á tímabilinu.
Richarlison fagnar fyrsta marki Everton á tímabilinu. Chris Brunskill/Getty Images

Franska fótboltafélagið París Saint-Germain mun horfa til Liverpool-borgar á Englandi ef franska stórstjarnan Kylian Mbappé fer til Real Madríd á næstu dögum.

Það er ekkert leyndarmál að Real Madríd er um þessar mundir að leita allra ráða til þess að festa kaup á franska framherjanum Kylian Mbappé. 

Leikmaðurinn sjálfur hefur gefið út að hann vilji fara og er talið að Real sé tilbúið að bjóða allt að 200 milljónir evra í leikmanninn þó svo að samningur Mbappé renni út næsta sumar og hann gæti þá komið frítt til Madrídar.

Samkvæmt Sky Sports munu forráðamenn Parísarliðsins horfa til Englands, nánar tiltekið Liverpool-borgar, í leit að eftirmanni Mbappé. 

Sá kemur þó ekki frá rauða hluta borgarinnar heldur þeim bláa. Talið er nær öruggt að Brasilíumaðurinn Richarlison yrði keyptur fari svo að Mbappé hverfi á braut.

Hinn 24 ára gamli Richarlison hefur leikið með Everton frá árinu 2018 en ári áður hafði Watford fengið hann til Englands frá Brasilíu. Richarlison hefur spilað alls 121 leik í treyju Everton. Í þeim hefur hann skorað 43 mörk ásamt því að leggja upp 10 til viðbótar. 

Þá hefur hann spilaði 32 A-landsleiki fyrir Brasilíu og skorað í þeim 10 mörk.

Richarlison yrði fjórði Brassinn í herbúðum Parísarliðsins en fyrir eru þeir Marquinhos, Rafinha að ógleymdum Neymar á mála hjá félaginu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.