Erlent

Dregur nokkuð úr vörninni eftir því sem mánuðirnir líða

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bóluefnin veita engu að síður góða vörn gegn alvarlegum veikindum og dauðsföllum.
Bóluefnin veita engu að síður góða vörn gegn alvarlegum veikindum og dauðsföllum. epa/Ciro Fusco

Vísindamenn segja nokkuð draga úr vörn bóluefna Pfizer og AstraZeneca eftir því sem líður frá bólusetningu. Við þessu sé þó að búast og að bóluefnin veiti áfram góða vörn.

Um er að ræða niðurstöður rannsóknar þar sem PCR niðurstöður fleiri en milljón einstaklinga voru skoðaðar. Allir áttu þeir sameiginlegt að hafa verið fullbólusettir með bóluefnunum frá Pfizer eða AstraZeneca.

Eftir einn mánuð reyndist bóluefnið frá Pfizer veita 88 prósent vörn gegn Covid-19 og 74 prósent vörn eftir fimm til sex mánuði.

Vörn Astra Zeneca fór úr 77 prósentum í 67 prósent eftir fjóra til fimm mánuði.

Vísindamennirnir segja að þrátt fyrir að bólusettir séu að greinast með Covid-19 veiti bóluefnin góða vörn gegn alvarlegum veikindum og dauðsföllum.

Heilbrigðisyfirvöld á Bretlandseyjum telja að bólusetningarátakið þar í landi hafi bjargað 84.600 mannslífum og komið í veg fyrir 23 milljón smit.

Tim Spector, sem fór fyrir áðurnefndri rannsókn, segist gera ráð fyrir að vörnin gæti dottið niður í 50 prósent í vetur, sem gæti kallað á örvunarskammtagjöf. Aðrir vísindamenn segja hins vegar of snemmt að segja til um það.

Þá bendir ýmislegt til þess að þeir sem hafa þegar fengið Covid hafi í raun fengið „náttúrlegan“ örvunarskammt og þurfi ekki á þriðju sprautunni að halda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×