Enski boltinn

Enskt lið á að hafa boðið í Mbappé

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kylian Mbappé gæti verið á leið til Englands.
Kylian Mbappé gæti verið á leið til Englands. EPA-EFE/Christophe Petit Tesson

Samkvæmt fréttamiðlinum Football Daily, sem flytur fréttir úr heimi fótboltans allan liðlangan daginn, ku enskt úrvalsdeildarfélag hafa boðið í franska sóknarmanninn Kylian Mbappé. 

Ekki kemur þó fram hvaða lið er um að ræða en aðeins örfá hafa efni á leikmanninum.

Mbappé hefur verið orðaður frá félagi sínu París-Saint Germain undanfarið. Hann hefur ekki skrifað undir nýjan samning við félagið og hefur lýst yfir áhuga sínum að spila með spænska stórveldinu Real Madríd. 

Bág fjárhagsstaða spænska félagsins gerir það hins vegar að verkum að það getur ekki keypt franska landsliðsmanninn fyrr en í fyrsta lagi næsta sumar.

Samningur hins 22 ára gamla Mbappé rennur út næsta sumar. Því virðist sem forráðamenn PSG séu tilbúnir að hlusta á tilboð í þennan magnaða leikmann svo hann fari ekki frítt eftir ár.

Mbappé hefur verið orðaður við Liverpool en reikna má með að Englandsmeistarar Manchester City sem og nágrannar þeirra í United fylgist gaumgæfilega með stöðu mála í París.

Mbappé gekk í raðir PSG 2017 og hefur síðan þá spilað 174 leiki fyrir félagið. Í þeim hefur hann skorað 133 mörk og lagt upp 63 til viðbótar. Einnig hefur hann spilað 48 A-landsleiki og skorað í þeim 17 mörk, þar á meðal fjögur er Frakkland varð heimsmeistari sumarið 2018.

Talið er að Parísarliðið vilji um það bil 120 milljónir punda fyrir franska sóknarmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×