Erlent

Band­menn Sex Pi­stols höfðu betur gegn Johnny Rotten

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Johnny Rotten verður ekki að ósk sinni og mun tónlist Sex Pistols nú hljóma í nýjum þáttum Disney um sveitina.
Johnny Rotten verður ekki að ósk sinni og mun tónlist Sex Pistols nú hljóma í nýjum þáttum Disney um sveitina. Getty/Michael Tullberg

Johnny Rotten, söngvarinn í bresku pönk-sveitinni Sex Pistols, tapaði máli gegn meðlimum sveitarinnar fyrir hæstarétti í Bretlandi í dag. Rotten krafðist þess að fyrrverandi félagar hans fengju ekki að nota Sex Pistols lög í sjónvarpsþáttaseríu um sveitina.

Paul Cook, trommari sveitarinnar, og Steve Jones, gítarleikari, kærðu Rotten, sem heitir réttu nafni John Lydon, en Rotten vildi ekki leyfa þeim að nota lög sveitarinnar í dramaþáttunum Pistols sem tvímenningarnir standa að.

Þættirnir koma út á næsta ári og eru framleiddir af Disney. Þeir verða sex og eru byggðir á sjálfsævisögu Jones sem kom út árið 2016 og ber titilinn Lonely Boy: Tales From A Sex Pistol.

Jones og Cook báru sigur úr bítum í deilunni við Rotten þar sem sveitin hafði gert samning árið 1998 um að kæmu upp deilumál réði meirihlutinn. Dómarinn Sir Anhony Mann taldi að sá samningur gilti enn.

Sex Pistols var stofnuð árið 1975 en leiðir skildu hjá hljómsveitarmeðlimum árið 1978 eftir stormasama tónleikaferð um Bandaríkin. Sid Vicious, bassaleikari sveitarinnar, dó í febrúar 1979 eftir að hafa tekið of stóran skammt heróíns. Hann var þá til rannsóknar hjá lögreglu eftir að kærastan hans Nancy Spungen var myrt, og var hann grunaður um morðið.

Sveitin hefur þó haldið áfram að spila saman á tónleikum í gegn um tíðina, síðast árið 2008.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.