Erlent

Talibanar segjast hafa unnið aftur norðurhéruð

Kjartan Kjartansson skrifar
Talibani með hríðskotabyssu í Kandahar-héraði.
Talibani með hríðskotabyssu í Kandahar-héraði. Vísir/EPA

Talsmaður talibana í Afganistan segir að þeir hafi náð aftur þremur héruðum í norðanverðu landinu sem uppreisnarhersveitir tóku í síðustu viku. Hersveitir andsnúnar talibönum eru enn í Panjshir-dal í Norður-Afganistan.

Bano, Deh Saleh og Pul e-Hesar í Baghlan-héraði féllu í hendur uppreisnarhersveita í síðustu viku en það voru fyrstu merkin um mögulega vopnaða andspyrnu gegn yfirráðum talibana frá því að þeir sölsuðu undir sig höfuðborgina Kabúl 15. ágúst.

Talibanar endurheimtu svæðin í dag og hafa tekið sér stöðu í kringum Panjshir-dal samkvæmt talsmanni samtakanna. Í dalnum halda til hersveitir sem eru hliðhollar Ahamd Massoud, syni fyrrum skæruliðaleiðtoga sem barðist gegn Sovétríkjunum á sínum tíma. Á meðal þeirra eru leifar stjórnarhersins og sérsveita, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Massoud hefur krafist viðræðna við talibana um einhvers konar samsteypustjórn en hefur heitið því að verjast ef þeir reyna að taka Panjshir-dal.

Ekki hefur komið til átaka í dalnum ennþá þrátt fyrir að talibanar segist hafa sent hundruð liðsmanna sinna þangað. Talsmaður talibana heldur því fram að ætlunin sé að leysa ágreininginn á friðsaman hátt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×