Erlent

Skutu fjölda hunda á leið í athvarf

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sveitarfélagið vildi ekki að starfsmenn dýraathvarfsins ferðuðust á milli svæða.
Sveitarfélagið vildi ekki að starfsmenn dýraathvarfsins ferðuðust á milli svæða. Getty

Eftirlitsstofnun sveitarfélaga í Ástralíu rannsakar nú lítið sveitarfélag þar í landi, eftir að ákvörðun var tekin um að skjóta fjölda hunda sem biðu þess að komast í dýraathvarf. Ástæðan virðist vera hræðsla embættismanna sveitarfélagsins við útbreiðslu Covid-19.

Greint er frá þessu á vef Sidney Morning Herald í Ástralíu. Þar segir að fjöldi hunda sem sveitarfélagið, Bourke Shire í Nýju-Suður Wales, hafði fundið á flakki og komið fyrir í geymslu hafi verið skotnir.

Í fréttinni segir að þetta hafi verið gert þrátt fyrir að sjálfboðaliðar á vegum dýraathvarfs í Cobar, nærliggjandi bæjarfélagi, hafi gengið frá því að hundarnir yrðu sóttir og komið fyrir í athvarfinu.

Eftirlitsstofnunin segist hafa fengið upplýsingar um það að sveitarfélagið hafi tekið ákvörðun um að skjóta hundana til þess að koma í veg fyrir að sjálfboðaliðar dýraathvarfsins myndu ferðast á milli svæða, vegnaa ótta við útbreiðslu Covid-19. Hafi þetta verið gert til að vernda starfsmenn sveitarfélagsins og íbúa þess.

Í fréttinni segir hins vegar að lítið sé um kórónuveirusmit í Cobar, þrátt fyrir að leifar veirunnar finnist í holræsum borgarinnar.

Fulltrúar sveitarfélagsins neituðu að tjá sig um málið en eftirlitsstofnunin rannsakar nú hvort að lög um dýravelferð hafi verið brotin.

Kórónuveirufaraldurinn er á nokkurri siglingu í Ástralíu þar sem ný bylgja hófst í sumar. Um tíu þúsund virk smit eru í Nýju-Suður Wales þar sem 800 greindust með kórónuveirunar í gær.

Bólusetningar ganga hægt í Ástralíu þar sem aðeins tæp 24 prósent landsmanna eru fullbólusettir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.