Erlent

Komust lík­lega á flug­völlinn með því múta Talibönum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Afganar hafa barist um að komast yfir girðingarnar sem umlykja alþjóðaflugvöllinn í Kabúl. Sumir hafa gripið á það ráð að múta Talibönum.
Afganar hafa barist um að komast yfir girðingarnar sem umlykja alþjóðaflugvöllinn í Kabúl. Sumir hafa gripið á það ráð að múta Talibönum. Getty/STR

Engir útlendingar hafa verið teknir höndum af Talibönum en einhverjir hafa þó verið teknir til yfirheyrslu áður en þeir fá að yfirgefa Afganistan að sögn Talibana.

Enn ríkir mikil ringulreið á flugvellinum í Kabúl sem Talibanar kenna Bandaríkjamönnum um. Leiðtogi Talíbana er mættur til Kabúl til stjórnarmyndunarviðræðna.

Þúsundir ef ekki milljónir Afgana hafa flúið heimili sín og haldið til Kabúl undanfarna daga í von um að komast um borð í flugvél á alþjóðaflugvellinum í borginni og flýja landið. Vegna þessa hafa Talibanar staðið vörð við flugvöllinn til að koma í veg fyrir að fólk komist inn fyrir girðingarnar.

„Talibanar hafa verið dálítið harðir við flugvöllinn,“ segir Árni Arnþórsson, aðstoðarrektor alþjóðaháskólans í Kabúl.

„Það eru allir alveg rosalega hræddir, Talibanar eru að fara hús úr húsi í sumum hverfum.“

Árni er sjálfur staddur í Madríd og vinnur nú að því að hjálpa nemendum sínum að flýja frá Afganistan. Hann segir það mikið vandaverk og hættulegt sé að reyna að komast inn á flugvöllinn.

„Ég var í síma með einni stúlku sem var við flugvöllinn og ég var að reyna að koma henni inn, við heyrðum skothvelli og hún varð hrædd náttúrulega og flúði,“ segir Árni.

Stúlkan fór aftur heim til sín þann dag og náði svo daginn eftir að komast inn á flugvöllinn úr landi. Árni segir ljóst að þeir sem komu inn þennan sama dag hafi mútað Talibönum.

„Það komust nokkrir inn og þeir sem komust inn líklega komust inn með því að rétta þeim tösku af peningum.“

Fjöldi ríkja hefur tilkynnt að þau muni taka á móti afgönsku flóttafólki, þar á meðal Bretland, Kanada og Ástralía. Enn hefur slík ákvörðun ekki verið tekin hér á landi en flóttamannanefnd skilaði tillögum um móttöku Afgana hér á landi til ráðherra í gær. Enn er ekki ljóst hvað felist í þeim tillögum en þær verða ræddar á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag.


Tengdar fréttir

Þrettán ríki hafa sam­þykkt að taka við af­gönsku flótta­fólki

Þrettán ríki hafa, að sögn utanríkisráðherra Bandaríkjanna, samþykkt að taka við afgönsku flóttafólki. Ísland er ekki meðal þeirra ríkja enn, en ríkisstjórninni hafa borist tillögur flóttamannanefndar um móttöku flóttafólks frá Afganistan hér á landi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.