Innlent

Ís­land gefur 60 milljónir til mann­úðar­að­­stoðar í­ A­f­gan­istan

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Utanríkisráðuneytið hefur lagt til 60 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðar í Afganistan. 
Utanríkisráðuneytið hefur lagt til 60 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðar í Afganistan.  Vísir/Vilhelm

Utanríkisráðuneyti Íslands hefur tilkynnt um sextíu milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðar íAfganistan. Framlaginu verður skipt jafnt má milli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaráðs Rauða Krossins.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Þá kemur fram að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, fundaði í dag með utanríkisráðherrum Atlantshafsbandalagsins um stöðuna í Afganistan.

Fram kemur í yfirlýsingu fundarins aðbandalagið leggi nú allt kapp á að flytja ríkisborgara bandalags- og samstarfsríkja frá Afganistan sem og afganska ríkisborgara sem eru í sérstakri hættu, sérstaklega þau sem hafa starfað fyrir bandalagið.

„Afganska þjóðin hefur fært miklar fórnir á síðustu tuttugu árum til að koma á friði og umbótum, bæta öryggi, mannréttindi, aðgengi að menntun og stöðu kvenna og stúlkna. Aðstoð alþjóðasamfélagsins byggist á ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hlutverk Atlantshafsbandalagsins undanfarin ár hefur verið að veita þjálfun og ráðgjöf á sviði öryggis- og varnarmála,“ er haft eftir Guðlaugi Þór ítilkynningunni.

„Sú staða sem upp er komin í landinu er því áfall og hætt við að kastað verði á glæ þeim framförum sem orðið hafa ílandinu á þessum tíma,“ segir Guðlaugur.

Kallað er eftir því að valdhafar í Afganistan, Talibanar, virði alþjóðlegar skuldbindingar landsins, mannréttindi og réttindi kvenna, barna og minnihlutahópa. Tryggja þurfi áfram óheftan aðgang mannúðaraðstoðar.

Átök hafa staðið yfir íAfganistan í rúm fjörutíu ár og hefur mannúðarástand þar lengi verið slæmt. Fyrr á árinu áætluðu Sameinuðu þjóðirnar að um helmingur afgönsku þjóðarinnar, eða um 18,4 milljónir, hafi þurft nauðsynlega á mannúðaraðstoð að halda og að einn af hverjum þremur íbúum hafi búið við hungur. Þá eru hátt í þrjár milljónir manna á flótta innanlands.

„Ljóst er að eftir atburði síðustu daga muni ástandið fara versnandi. Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað mikilvægi þess að mannúðaraðgerðir haldi áfram í landinu en skortur á fjármagni til að veita lífsbjargandi aðstoð muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir afgönsku þjóðina,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Þúsundir freista þess að flýja Talibana

Bandaríkjamenn reyna hvað þeir geta til að hraða flutningi á löndum sínum og flóttamönnum frá Afganistan áður en allt bandarískt herlið á að vera að fullu farið frá landinu hinn 31. ágúst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×