Erlent

Konur birtast á skjánum á ný

Heimir Már Pétursson skrifar
Konur eru sagðar hafa horfið af götum Kabúl eftir að Talíbanar náðu borginni á sitt vald. Myndin er úr safni.
Konur eru sagðar hafa horfið af götum Kabúl eftir að Talíbanar náðu borginni á sitt vald. Myndin er úr safni. Paula Bronstein/Getty

Kvenkyns fréttaþulur birtist á skjánum á ný hjá fréttastofunni Tolo News í Afganistan í gærkvöldi en konur hafa ekki sést á skjánum frá því Talibanar náðu Kabúl höfuðborg landsins á sitt vald á sunnudag.

Í gærkvöldi ræddi fréttakona hins vegar við fjölmiðlafulltrúa Talibana í beinni útsendingu. 

Enn er mikil ringulreið á flugvellinum í Kabúl þar sem þúsundi starfsmanna sendiráða, hjálparstofnana og margir heimamenn reyna að komast úr landi. 

Þýskri herflugvél tókst aðeins að flytja sjö manns frá borginni í gær en áætlað hafði verið að flytja 57 sendiráðsstarfsmenn og 88 aðra Þjóðverja með tveimur þýskum herflugvélum frá borginni. 

Þar sem erfitt var að lenda á flugvellinum vegna mannmergðar voru flugvélarnar orðnar eldsneytislitlar og gat því aðeins önnur þeirra lent og tekið sjö manns með til baka. 

Tugir þúsunda manna voru á flugvellinum í gær og var honum lokað um tíma en hann var opnaður aftur í morgun. 

Talibanar hafa heitið öllum opinberum starfsmönnum griða og skorað á þá að mæta aftur til starfa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×