Enski boltinn

Barcelona sagt vilja fá Auba­mey­ang eða Lacazette í skiptum fyrir Coutin­ho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexandre Lacazette og Pierre-Emerick Aubameyang fagna hér saman marki hjá Arsenal liðinu.
Alexandre Lacazette og Pierre-Emerick Aubameyang fagna hér saman marki hjá Arsenal liðinu. EPA-EFE/WILL OLIVER

Ronald Koeman, þjálfari Barcelona, vill fá nýjan framherja í hópinn sinn og hann hefur augun á tveimur framherjum í ensku úrvalsdeildinni.

Barcelona missti Lionel Messi á frjálsri sölu til Paris Saint Germain en skoraði samt fjögur mörk um helgina í fyrsta leiknum án hans.

Gerard Pique, einn af fyrirliðum Barcelona, tók á sig mikla kauplækkun fyrir helgi þannig að Barcelona gat skráð Memphis Depay og Eric Garcia til leiks.

Koeman vill fá annan leikmann en aðeins ef félagið nær að losa sig við einn launahæsta leikmann sinn.

Spænska blaðið Sport segir að Koeman hafi mikinn áhuga á Arsenal framherjunum Pierre Emerick-Aubameyang og Alexandre Lacazette.

Maðurinn sem Barca þarf að losna við er Philippe Coutinho og samkvæmt öðrum fréttum þá hefur Barcelona boðið Arsenal hann í skiptum fyrir annað hvort Lacazette eða Aubameyang.

Coutinho var ekki í hóp hjá Barcelona um helgina sem ýtti undir þær sögusagnir að hann væri á leiðinni frá félaginu.

Risakaup Barcelona á Coutinho frá Liverpool eru ein þau misheppnuðust í sögu félagsins og hafa seinna skapað vandamál því hann fékk líka svo góðan launasamning sem hann hefur ekki viljað gefa eftir.

Aubameyang á tvö ár eftir af samningi sínum en Lacazette aðeins einn. Hinn 32 ára gamli Aubameyang er launahæsti leikmaður Arsenal eftir að Mesut Özil fór á síðasta tímabili.

Lacazette er sá sem menn telja líklegri til að fara frá félaginu á þessum tímapunkti.

Hvorugur þeirra var með Arsenal um helgina þegar liðið tapaði 2-0 á móti nýliðum Brentford í fyrsta leik.

Barcelona er með þá Antoine Griezmann, Memphis Depay, Ansu Fati og Ousmane Dembele í sínum röðum og svo auðvitað Sergio Aguero sem missir af fyrstu mánuðum tímabilsins vegna meiðsla.

Barcelona mun reyna að selja Martin Braithwaite en danski framherjinn skoraði tvö mörk í fyrsta leik liðsins í gær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.