Umfjöllun og viðtöl: FH - Leiknir R. 5-0 | FH-ingar rúlluðu yfir nýliðana

Sverrir Mar Smárason skrifar
Steven Lennon er lykilmaður hjá FH.
Steven Lennon er lykilmaður hjá FH. vísir/Hulda Margrét

FH fengu Leikni í heimsókn í Kaplakrika í Pepsi-Max deild karla í kvöld. Liðin tvö á svipuðum stað í deildinni fyrir leikinn, Leiknir með 21 stig í 6.sæti en FH með 19 stig í 7.sæti. FH sigruðu leikinn 5-0 og komust þar með yfir Leikni í töflunni.

Fyrri hálfleikurinn var að mörgu leyti mjög daufur. Hvorugu liðinu gekk vel að skapa sér góð marktækifæri en FH fengu það besta í hálfleiknum. Jónatan Ingi fékk þá góða stungusendingu frá Matthíasi Vilhjálmssyni og var einn gegn Guy Smit í marki Leiknis en skotið ekki gott.

Það var svo á 43.mínútu sem fyrsta mark leiksins kom. Steven Lennon vann boltann af Bjarka Aðalsteinssyni í vörn Leiknis, keyrði á vörnina og renndi boltanum svo á Jónatan Inga. Jónatan rak boltann inn í teig Leiknis og fékk svo Gyrðir Hrafn í bakið, féll og vítaspyrna dæmd. Steven Lennon skoraði af öryggi úr spyrnunni.

Hálfleikstölur 1-0 fyrir FH þrátt fyrir að Leiknismenn hafi haft yfirhöndina í spili úti á velli.

Síðari hálfleikur var að mörgu leyti nokkuð skrýtinn. Leiknismenn komu sterkir út og virtust ætla að halda áfram sínum yfirburðum en líkt og í fyrri hálfleiknum þá voru það FH sem fengu færin og nýttu þau. Annað mark FH kom á 55.mínútu þegar Jónatan Ingi fékk boltann á miðjum sóknarhelmingi, keyrði á vörn Leiknis og sendi góða sendingu inn fyrir á Matthías Vilhjálmsson sem skoraði vel framhjá Guy Smit í marki Leiknis.

Áfram héldu FH-ingar og áfram lagði Jónatan upp. Á 62.mínútu tók hann hornspyrnu sem hann spyrnti fyrir markið, beint á Pétur Viðarsson sem skoraði þriðja mark FH og gerði hálf partinn út um vonir Leiknis um stig úr þessum leik. Leiknismenn héldu þó sínu striki og héldu áfram að reyna enda ekki þekktir fyrir að gefast mikið upp. Þeir sköpuðu hins vegar engin góð marktækifæri frekar en fyrr í leiknum.

FH skoruðu svo sitt fjórða mark á 83.mínútu. Morten Beck hafði þá átt skalla að marki sem Guy Smit varði en FH héldu boltanum og aftur barst hann fyrir markið. Nú frá Baldri Loga Guðlaugssyni og beint á kollinn á Morten Beck sem skoraði í þessari skallatilraun og staðan orðin 4-0 fyrir FH.

FH-ingar gerðu skemmtilega skiptingar í leiknum í kvöld. Þeir gáfu mjög ungum leikmönnum loka mínútur leiksins en þeir Jóhann Ægir (2002), Óskar Atli (2002) og William Cole Campbell (2006) komu allir inná auk Olivers Heiðarssonar sem hefur þó fengið talsvert fleiri mínútur með liðinu í sumar.

Þessir varamenn komu svo að síðasta marki leiksins því það var Óskar Atli sem átti fyrirgjöf sem endaði á fjærstöng hjá Oliver Heiðarssyni sem lagði boltann þægilega í netið. Lokatölur 5-0 sigur FH sem stíga upp fyrir Leiknir R. í deildinni.

Af hverju vann FH?

Það er mjög einfalt. FH voru þolinmóðir og agaðir þegar Leiknir var með boltann og það voru þeir sem sköpuðu svo færin og skoruðu úr þeim.

Hverjir stóðu upp úr?

Jónatan Ingi Jónsson stóð upp úr í kvöld. Leikmaður með svakalega mikil gæði en oft hefur vantað loka framlag og þátt í mörkum. Það vantaði heldur betur ekki í kvöld því líkt og fyrr segir lagði hann upp þrjú mörk og enn fleiri færi fyrir liðsfélaga sína.

Guðmann Þórisson fær líka tilnefningu. Hann var virkilega öflugur í hjarta varnar FH í kvöld og átti í litlu veseni með sóknir og sóknarmenn Leiknis.

Hvað hefði mátt fara betur?

Leiknismenn hefðu mátt skapa sér fleiri marktækifæri. Þeir höfðu boltann mun meira en FH fyrstu 60 mínútur leiksins en sköpuðu sér engin færi. Þeir bjuggu oft til góðar stöður en náðu illa að tengja saman hlaup og sendingar á síðasta þriðjungi vallarins.

Hvað gerist næst?

FH spilar næst áður frestaðan leik við Keflavík á útivelli þann 21.ágúst.

Leiknismenn fá HK í heimsókn í Breiðholtið þann 23.ágúst í leik sem skiptir bæði lið máli í baráttunni um áframhaldandi sæti í deild þeirra bestu árið 2022.

Davíð Þór Viðarsson: Frábær dagur fyrir okkur

„Við erum það svo sannarlega. Það var kannski ekki alveg svona mikið á milli liðanna en þetta var svona í fyrsta skiptið í sumar sem mér finnst við klára sénsana okkar mjög vel. Þetta var jafn leikur að miklu leyti. Leiknismennirnir búnir að spila vel í sumar og með hörku lið. Eftir annað markið göngum við á lagið, kemur mun meira sjálfstraust í liðið og bara frábær úrslit og frábær leikur hjá okkur,“ sagði Davíð Þór, aðstoðarþjálfari FH, gríðarlega sáttur við sigur kvöldsins.

Margir ungir leikmenn FH tóku þátt í leiknum, Davíð Þór var virkilega ánægður með þeirra framlag.

„Við byrjum með Loga Hrafn á miðjunni, hann er ný orðinn 17 ára og ekki einusinni kominn með bílpróf. Hann var frábær í dag. Svo setjum við inn ungan hafsent Jóhann Ægir, setjum inn ungan vinstri væng Óskar Atla og svo setjum við einnig inn einn sem er 15 ára, William Cole Campbell. Þeir koma allir inn og svona sýna manni það að þeir gætu alveg þolað það að fá fleiri mínútur í dag. Frábær dagur fyrir okkur,“ sagði Davíð Þór um ungu strákana.

Sigurður Höskuldsson: Mér fannst við vera með yfirhöndina þegar við gerum mistökin í markinu

Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis, var eðlilega ekki nægilega sáttur við úrslit kvöldsins.

„Mér fannst við gera nokkuð vel í fyrri hálfleik og loka á það sem þeir voru að gera. Mér fannst við vera með yfirhöndina þegar við gerum mistökin í markinu. Síðan ég tók við held ég að þetta sé í fyrsta skipti sem við fáum á okkur mark eftir svona mistök og hlaut að koma að því að það myndi gerast. Svo fannst mér seinni hálfleikurinn byrja þrusu vel hjá okkur og fannst líta út fyrir að við myndum koma til baka. Ein syndisókn og svo horn, tvö mörk í andlitið drap þetta og við náðum aldrei að ógna þeim eftir það,“ sagði Sigurður.

Leiknir R. missa FH upp fyrir sig í deildinni. Leiknismenn eru þó hvergi nærri hættir.

„Við ætlum að tryggja sætið okkar í deildinni og halda áfram að reyna bæta okkar leik. Ef að frammistaðan verður eins og við höfum sýnt í sumar þá koma fleiri stig og við höldum áfram að vera í Pepsi-Max deildinni,“ sagði Sigurður um markmið Leiknis á lokakafla deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira