Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin er bikar­meistarar Víkings tryggðu sér sæti í átta liða úr­slitum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Víkingar fagna marki Erlings Agnarssonar.
Víkingar fagna marki Erlings Agnarssonar. Vísir/Hulda Margrét

Bikarmeistarar Víkings unnu öruggan 3-1 sigur á KR í stórleik 16-liða úrslita Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. Sigur Víkinga var einkar öruggur en liðið komst í 3-0 og mark KR kom undir lok leiks þegar úrslitin voru ráðin.

Mikil spenna var fyrir leik en liðin gerðu jafntefli er þau mættust í Pepsi Max deildinni fyrir ekki svo löngu síðan. Þá hafði Víkingur ekki unnið KR síðan Arnar Gunnlaugsson tók við liðinu. Það var því mikil spenna er liðin gengu út á fagurgrænan gervigrasvöll Víkinga.

Eftir rúman hálftíma leik tóku Víkingar öll völd á vellinum. Viktor Örlygur Andrason batt endahnútinn á snyrtilega sókn heimamanna. Atli Barkarson átti þá fyrirgjöf sem fór í gegnum þvögu af leikmönnum áður en hún kom fyrir fætur Viktors Örlygs sem smellti honum með vinstri í netið.

Nikolaj Hansen bætti við öðru marki Víkinga þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Erlingur Agnarsson stakk sér inn fyrir vörn KR og lagði boltann út á Hansen sem smellti knettinum í netið.

Þegar rúmar tuttugu mínútur lifðu leiks gerði Erlingur út um leikinn eftir misheppnað uppspil KR-inga. Erlingur fékk boltann í þröngu færi vinstra megin í teignum en renndi honum milli fóta Beitis Ólafssonar í marki KR og kom Víking 3-0 yfir.

Er venjulegur leiktími var að renna sitt skeið minnkaði Kristján Flóki Finnbogason muninn með skoti af stuttu færi eftir sendingu Atla Sigurjónssonar. Mörkin fjögur má öll sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Víkingur 3-1 KR

Mjólkurbikarinn er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Mjólkurbikarinn er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×