Erlent

Getur ekki falið sig á bakvið „auð og vald og hallarveggi“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þó prinsinn neiti að taka svara fyrir sakirnar verður engu að síður dæmt í málinu.
Þó prinsinn neiti að taka svara fyrir sakirnar verður engu að síður dæmt í málinu. epa/Facundo Arrizabalaga

Hertoginn af York getur ekki falið sig á bakvið „auð og hallarveggi“ og verður að svara þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar fyrir bandarískum dómstólum. Þetta segir lögmaður Virginiu Giuffre, sem hefur sakað Andrés Bretaprins um nauðgun.

Prinsinn hefur ítrekað neitað ásökununum og talskona hans segir að hann muni ekki tjá sig um málið.

Lögmaður Giuffre, David Boies, segir hana hafa leitað allra leiða til að leysa málið utan dómstóla en nú sé komið að því að bera það undir dómara og kviðdóm.

„Á þessu stigi er málshöfðun eina leiðin til að leiða sannleikann í ljós og málshöfðun er eina leiðin til að leiða í ljós í eitt skipti fyrir öll hvaða sönnunargögn Andrés getur lagt fram,“ sagði Boies í samtali við BBC.

Hann sagði óskynsamlegt af prinsinum að hunsa dómsmálið; ef hann gerði það yrði dæmt í málinu án hans aðkomu og dóminum framfylgt í Bandaríkjunum og öllum siðmenntuðum ríkjum heims.

Boies sagði Giuffre vilja senda þau skilaboð til ríkra og valdamikilla manna að hegðun á borð við þá sem Andrés hefði gerst sekur um væri ekki ásættanleg og ómögulegt að fela sig á bakvið „auð og vald og hallarveggi“. 

Prinsinn á ekki á hættu að verða framseldur til Bandaríkjanna þar sem um er að ræða einkamál en ekki sakamál. 

Giuffre hefur sakað hann um að hafa nauðgað sér á heimili Jeffrey Epstein þegar hún var 17 ára gömul, vitandi hvað hún var gömul og að hún var fórnarlamb mansals. Samkvæmt gögnum málsins hafa Andrés og fulltrúar hans neitað að svara ásökununum og leggja fram gögn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×