Erlent

Kínverskur áfrýjunardómstóll staðfestir dauðadóm yfir Kanadamanni

Heimir Már Pétursson skrifar
Kanadíski fáninn blaktir við hún við sendiráð Kanada í Pekíng.
Kanadíski fáninn blaktir við hún við sendiráð Kanada í Pekíng. epa/Roman Pilipey

Áfrýjunardómstóll í Kína hefur staðfest þyngingu á dómi yfir Kanadamanni úr fimmtán ára fangelsi í dauðadóm fyrir að hafa reynt að smygla tæplega 230 kílóum af metaamfetamíni frá Kína til Ástralíu árið 2014.

Robert Lloyd Schellenberg hefur alla tíð neitað ásökununum. 

Fyrri dómurinn yfir honum var felldur árið 2018 en nokkrum vikum síðar var Meng Wanzhou, sem var hátt sett hjá tæknirisanum Huawei, handtekin í Kanada á grundvelli bandarískrar handtökuskipunar. 

Kínversk stjórnvöld vöruðu þá við afleiðingunum af handtöku hennar en hún hefur enn ekki verið framseld frá Kanada til Bandaríkjanna. 

Þegar áfrýjunardómstóll kvað upp dauðadóminn í fyrra skiptið árið 2018 sagði dómari að fimmtán ára fangelsi væri of vægur dómur. Málið fer nú sjálfkrafa til Hæstaréttar Kína eins og allir dauðadómar. 

Stjórnvöld í Kanada saka kínversk stjórnvöld um að nota Shellenberg sem peð í átökum sínum við Bandaríkjamenn.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.