Erlent

Segja þeirra versta ótta hafa orðið að veru­leika með dauða­dómnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Robert Lloyd Schellenberg í dómsalnum í gær.
Robert Lloyd Schellenberg í dómsalnum í gær. vísir/ap
Fjölskylda Robert Lloyd Schellenberg, Kanadamanns sem dæmdur hefur verið til dauða í Kína fyrir fíkniefnasmygl, segir að þeirra versti ótti hafi orðið að veruleika með dómnum.

Schellenberg hafði hlotið fimmtán ára fangelsisdóm í nóvember síðastliðnum en sá dómur var of vægur að mati dómstólsins sem kvað upp dauðadóminn í gær.

Talið er líklegt að dómurinn geri milliríkjasamskipti Kína og Kanada enn verri en áður en handtaka háttsetts yfirmanns hjá kínverska tæknifyrirtækinu Huawei í Kanada í síðasta mánuði hefur haft slæm áhrif á samskipti ríkjanna.

Lauri Nelson-Jones, frænka Schellenberg, lýsir dauðadómi frænda síns sem hræðilegum.

„Okkar versti ótti hefur orðið að veruleika. Við getum varla ímyndað okkur hvernig honum líður eða hvað hann er að hugsa,“ er haft eftir henni á vef BBC.

Þá hefur Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, fordæmt dóminn.

Schellenberg hefur tíu daga til að áfrýja dómnum og segir verjandi hans að hann telji líklegt að hann muni gera það.

Það var árið 2014 sem Schellenberg var handtekinn í Kína, grunaður um að ætla sér að smygla um 227 kílóum af metamfetamíni frá Kína til Ástralíu.

„Ég er ekki eiturlyfjainnflytjandi. Ég kom til Kína sem ferðamaður,“ sagði Schellenberg skömmu áður en dómurinn var kveðinn upp í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×