Erlent

Meiri vissa um alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga en lausnir mögulegar

Kjartan Kjartansson skrifar
Verkamenn moka braki og drullu af götu bæjarins Zapopan í Jalisco-ríki í Mexíkó eftir að Arroyo Secco-áin flæddi yfir bakka sína í kjölfar aftakaúrkomu í júlí. Veðuröfgar af þessu tagi verða tíðari með áframhaldandi hlýnun loftslags.
Verkamenn moka braki og drullu af götu bæjarins Zapopan í Jalisco-ríki í Mexíkó eftir að Arroyo Secco-áin flæddi yfir bakka sína í kjölfar aftakaúrkomu í júlí. Veðuröfgar af þessu tagi verða tíðari með áframhaldandi hlýnun loftslags. Vísir/EPA

Framfarir í vísindum undanfarin ár hafa skotið enn fastari stoðum undir spár um hnattræna hlýnun og afleiðingar hennar. Meiri vissa er nú fyrir því en áður að aftakaatburðir verði tíðari og afdrifaríkari samkvæmt nýrri tímamótaskýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Dregin er upp dökk mynd af alvarlegum loftslagsbreytingum sem þegar eiga sér stað á jörðinni vegna stórfelldrar losunar manna á gróðurhúsalofttegundum í nýrri skýrslu sérfræðingahóps milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem birt var í dag. 

Þannig liggja nú fyrir enn ítarlegri gögn um að loftslagsbreytingar geri ýmsa aftakaatburði algengari og afdrifaríkari, þar á meðal ákafari rigningu og meiri öfgar í hitabylgjum og þurrkum.

Nú eru taldar helmingslíkur á að hnattræn hlýnun nái 1,5°C, metnaðarfyllra markmiði Parísarsamkomulagsins, snemma á næsta áratug. Það er enn fyrr en gert var ráð fyrir í sérstakri skýrslu SÞ um 1,5°C-markmiðið sem kom úr árið 2018.

Þetta er fyrsta svonefnda úttektarskýrsla loftslagsnefndarinnar frá árinu 2014, sú sjötta í röðinni (AR6). Ekki er um nýja rannsókn að ræða heldur samantekt á vísindalegri þekkingu á orsökum og afleiðingum hnattrænnar hlýnunar sem verður fræðilegur grundvöllur viðræðna þjóða heims næstu árin.

Í skýrslunni er þó einnig að finna skýr skilaboð um að lausnir á loftslagsvánni séu mögulegar. Þrátt fyrir að í öllum sviðsmyndum um losun haldi hnattræn hlýnun áfram að minnsta kosti fram yfir miðja öldina stöðvaðist hlýnunin skömmu eftir að hún færi umfram 1,5°C og lækkaði niður að 1,5°C fyrir lok aldarinnar í þeirri sviðsmynd þar sem mest væri dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Verði lítið eða ekkert að gert til að koma böndum á útblástur gæti hlýnunin náð 2°C um miðja öldina og allt að 3,3°C til 5,7°C fyrir lok hennar.

Farvegur Parana-árinnar í Argentínu skraufþurr í lok júlí. Áin sér um 40 milljónum manna fyrir drykkjarvatni í Suður-Ameríku en vatnsmagnið hefur minnkað vegna minnkandi úrkomu.Vísir/EPA

Aðeins örfáir áratugir til stefnu til að stöðva losun

Mat á hversu mikið hlýnað hefur á jörðinni hefur hækkað frá síðustu skýrslu IPCC af þessu tagi fyrir sjö árum. Á síðasta áratugi var meðalhiti jarðar 1,09°C hærri en meðaltal áranna 1850-1900, áður en iðnbyltingin hófst af fullum krafti. Síðustu fjóra áratugina hefur hver áratugur verið hlýrri en allir fyrri áratugir frá því að samfelldar mælingar hófust fyrir meira en 170 árum.

Hlýnun er nánast í beinu hlutfalli við uppsafnaða losun manna á gróðurhúsalofttegundum en hún hefur verið stófelld. Áætlað er að menn hafi losað um það bil 2.390 milljarða tonna af koltvísýringi frá 1850 til 2019. Meginþorri þeirrar losunar er vegna bruna á jarðefnaeldsneyti: kolum, olíu og gasi.

Vilji mannkynið halda í góðar líkur á því að hlýnunin fari ekki umfram þær 1,5°C sem þjóðir heims ákváðu að þær gætu lifað með í Parísarsamkomulaginu má losunin frá 2020 ekki verða meiri en 300 milljarðar tonna. Sætti menn sig við helminglíkur á að halda í markmiðið má ekki losa meira en 850 milljarða tonna.

Þar sem árleg losun manna nemur um fjörutíu milljörðum tonna eru aðeins örfáir áratugir til stefnu áður en þetta svonefnda kolefnisþak springur.

Breytingar á hnattrænum meðalhita miðað við 1850-1900.IPCC

Öfgarnar aukist frá 1950

Áhrif þessarar miklu hlýnunar loftslags eru talin verða gríðarleg og hafa vísindamenn nú meiri vissu um hverjar þær verða frá því í síðustu stóru vísindaskýrslu IPCC. Jöklar hopa um alla jörð, veðuröfgar aukast, sjávarstaða hækkar, hafið súrnar og ekki er hægt að útiloka hraðar og hugsanlegar óafturkræfar breytingar á loftslagskerfinu.

Aukin gróðurhúsaáhrif vegna losunar manna valda því að varmi safnast upp í loftslagskerfinu. Um 91% varmans hefur farið í að hita upp hafið, 5% í að hita yfirborð jarðar, 3% í bráðnun íss en aðeins 1% í að hita andrúmsloftið.

Varminn hefur áhrif á veðurlag víða um jörðina. Frá 1950 hafa vaxandi öfgar verið í ákafri úrkomu og þurrkum og almennt meiri breytileiki í úrkomu víða á jörðinni. Þessi breyting á hringrás vatns á jörðinni heldur áfram eftir því sem hlýnun ágerist. Úrkoma verður ákafari, úrkomumynstur breytist, þurrkar og hitabylgjur verða algengari og heitari á flestum landsvæðum. Þá hafa hitabeltislægðir breyst og fleiri þeirra ná því að verða öflugir fellibyljir sem ákafari úrkoma fylgir. Flóð og gróður- og skógareldar hafa einnig orðið algengari fyrir athafnir manna.

Samband hlýnunar og uppsafnaðrar losunar.IPCC

Massatap Grænlandsjökul sexfaldast á þremur áratugum

Rýrnun stóru ísbreiðanna á jörðinni og jökla utan heimskautasvæða hefur hert mikið á sér undanfarna þrjá áratugi og árlegt massatap hefur margfaldast. Á öðrum áratug þessarar aldar tapaði Grænlandsjökull þannig um 234 milljörðum tonna af ís á hverju ári að meðaltali. Massatap hans hefur sexfaldast á þremur áratugum.

 Á Suðurskautslandinu rýrnaði ísinn um 148 milljarða tonna á ári á sama tímabili og allir jöklarnir utan stóru ísbreiðanna um 290 milljarða tonna.

Einnig hefur hafísútbreiðsla á norðurskautinu dregist mikið saman og er talið að athafnir manna hafi veruleg áhrif á það þó að margir ólíkir ferlar komi við sögu. Nú er talið mjög líklegt að Norður-Íshafið verði að mestu íslaust að minnast kosti einu sinni að sumarlagi fyrir miðbik aldarinnar.

Það er ekki aðeins ís sem bráðnar heldur veldur hlýnun jarðar, sem nánast öruggt er talið að verði áfram enn meiri á norðurskautinu en að meðaltali á jörðinni, heldur þiðnar sífreri í auknum mæli auk þess sem árstíðabundin snjóþekja og rúmmál jökulíss minnkar.

Hækkun sjávarmáls hangir á örlögum stóru ísbreiðanna

Bráðnun íss á landi er nú það sem hefur mest áhrif á hækkun sjávarstöðu á jörðinni en hún hefur einnig hækkað vegna varmaútþenslu sjávar. Í nýju skýrslu IPCC er nú spáð meiri hækkun sjávarmáls á þessari öld en í þeirri síðustu en hún var gagnrýnd fyrir varfærna spá um þróun sjávarstöðu.

Nánast öruggt er talið að sjávarstaða hækki að meðaltali á jörðinni áfram. Í þeirri sviðsmynd þar sem mest er losað af gróðurhúsalofttegundum er talið að sjávarstaðan gæti hækkað um allt að metra fyrir miðja öldina og á bilinu einn til tvo metra fyrir miðja næstu öld.

Hins vegar er ekki hægt að útiloka að hækkun sjávarmáls verði mun meiri, allt að tveir metrar í lok þessarar aldar og allt að fimm metrar um miðja 22. öldina. Það veltu á stöðugleika ísbreiðanna á Grænlandi og Suðurskautslandinu sem mikil óvissa ríkir um.

Enn stærri breytingar ekki útilokaðar

Vísindamenn hafa lengi haft áhyggjur af svonefndum vendipunktum [e. tipping points] í loftslagskerfinu þar sem hlýnun gæti hrint af stað stórfelldum og möguleg óafturkræfum breytingum.

Farið er varlega í spám um slíka atburði í skýrslu IPCC. Ónæg þekking er sögð fyrir hendi á hröðum og hugsanlega óafturkræfum breytingum. Það þýði þó að ekki sé hægt að útiloka breytingar á loftslagskerfi sem séu afdrifaríkar en ólíklegar.

Þar á meðal er stöðvun hringrása í hafinu eins og veltihringrás Atlantshafsins sem Golfstraumurinn er hluti af og hrun í stóru ísbreiðunum. Líkur á hruni íssins á Suðurskautslandinu eru sagðar fara vaxandi með tímanum.

Mjög líklegt er talið að dragi úr styrk lóðréttrar hringrásar Atlantshafsins á þessari öld en ekki er víst hversu mikið. Vísindamenn telja sig aðeins hafa miðlungs vissu fyrir því að hringrásin hrynji ekki alveg en það hefði mikil svæðisbundin áhrif á veðurkerfi og úrkomu: kólnun á sumum svæðum, meiri hlýnun á öðrum og jafnvel breytingar á monsúnrigningum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×