Innlent

Læknar vilja óskert sumarfrí og segja þörf á hugarfarsbreytingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Landspítalinn Fossvogi.
Landspítalinn Fossvogi. Vísir/Egill

Félag sjúkrahúslækna segir mikilvægt að tryggja að heilbrigðisstarfsmenn fái óskert sumarfrí. Alvarlegt ástand á Landspítalanum vegna fjölgunar þeirra sem smitast hafa af Covid-19 hefði ekki átt að koma á óvart og hugarfarsbreytingu þurfi í stjórnun spítalans.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Félagi sjúkrahúslækna sem Theódór Skúli Sigurðsson, formaður félagsins, skrifar undir.

Þar segir að núverandi hættustig á Landspítalanum sé ekki eingöngu tilkomið vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar, heldur endurspegli það viðvarandi skort síðustu ára. Lágmarksmönnun og hundrað prósent hámarksnýting legurýma hafi fengið að viðgangast allt of lengi þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir lækna.

„Nú er svo komið að heildarfjöldi legurýma og gjörgæsluplássa á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í Evrópu,“ segir í yfirlýsingunni.

„Sú staðreynd er íslenskum yfirvöldum til skammar.“

Mikilvægt að ná niður nýtingu legurýma

Í yfirlýsingunni segir ennfremur að þörf sé á hugarfarsbreytingu og nýjum áherslum við stjórnun og mönnun Landspítalans. Finna þurfi varanlega lausn á krónískum skorti legurýma. Forgangsatriði ætti að vera að ná nýtingu þeirra niður fyrir 90 prósent með öllum tiltækum ráðum í samræmi við alþjóðleg viðmið.

„Tryggja þarf svigrúm Landspítalans til að takast á við álagstoppa í innlögnum og þjónustu við alvarlega veika sjúklinga óháð sumarfríum starfsmanna. Mikilvægt er að gæta þess í lengstu lög að heilbrigðisstarfsmenn sem staðið hafa vaktina síðustu mánuði í baráttunni við COVID-19 faraldurinn fái óskert sumarfrí,“ segir í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir

„Það er ekki í boði í krísu að taka ekki ákvörðun“

Innviðir munu að óbreyttu bresta og það dugir ekki að sitja hjá aðgerðalaus. Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns, Kamillu Sigríðar Jósefsdóttur, staðgengils sóttvarnalæknis, og Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítala, á upplýsingafundi vegna kórónuveirufaraldursins rétt í þessu.

Ýmis kerfi komin að þolmörkum

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra segir stöðu kórónuveirufaraldursins hafa þyngst og að ýmis kerfi séu komin að þolmörkum. 

Álagið fyrst og fremst vegna almennra veikinda

Álagið á bráðamóttöku Landspítalans er fyrst og fremst vegna almennra veikinda, fremur en vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, í samtali við Morgunblaðið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.