Erlent

Ræningjarnir yfirgáfu skipið

Samúel Karl Ólason skrifar
Gervihnattagögn sýna að Asphalt Princess var siglt í átt að Íran en skömmu eftir að tilkynnt var að mennirnir hefðu farið frá borði, hafi skipinu verið snúið í átt að Óman.
Gervihnattagögn sýna að Asphalt Princess var siglt í átt að Íran en skömmu eftir að tilkynnt var að mennirnir hefðu farið frá borði, hafi skipinu verið snúið í átt að Óman. AP/Jon Gambrell

Vopnaðir menn sem fóru um borð í olíuflutningaskip undan ströndum Óman í gær, yfirgáfu skipið Sjóher Bretlands tilkynnti þetta í morgun og var skipinu siglt í átt að Óman skömmu seinna.

Fregnir bárust af því í gær að hópur vopnaðra manna hefðu farið um borð í olíuflutningaskipið Asphalt Princess og tekið yfir stjórn þess.

Enn eru upplýsingar um atvikið á reiki og er ekki vitað hverjir bera ábyrgð á þessari meintu ránstilraun né af hverju mennirnir fóru frá borði. Spjótin beindust fljótt að Íran, sem hefur verið sakað um árásir á olíuflutningaskip á Persaflóa á undanförnum mánuðum.

Sjá einnig: Vopnaðir menn fóru um borð í olíuflutningaskip á Persaflóa

AP fréttaveitan segir gervihnattagögn sýna að Asphalt Princess hafi verið siglt í átt að Íran en skömmu eftir að tilkynnt var að mennirnir hefðu farið frá borði, hafi skipinu verið snúið í átt að Óman.

Segjast ekkert vita um atvikið

Fréttaveitan hefur eftir Saeed Khatibzadeh, talsmanni utanríkisráðuneytis Írans, að þar á bæ hafi menn enga vitneskju um atvikið og Íran hafi ekki komið að því á nokkurn hátt.

Árið 2019 réðust íranskir hermenn um borð í breskt olíuflutningaskip og sigldu skipinu til Írans. Það var eftir að Bretar tóku íranskt olíuflutningaskip sem talið var að notað væri til að brjóta gegn viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins gegn Sýrlandi.

Í fyrra hvar olíuflutningaskipi rænt undan ströndum Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Yfirvöld í Bandaríkjunum voru að leita að því skipi vegna gruns um að það væri notað af yfirvöldum í Íran til að komast hjá viðskiptaþvingunum. Það skip fannst seinna í Íran.

Í janúar fóru svo íranskir hermenn um borð í olíuflutningaskip frá Suður-Kóreu og þvinguðu áhöfn þess til að sigla til Írans. Íranar sögðust hafa lagt hald á skipið vegna mengunar en á þeim tíma áttu yfirvöld Írans og Suður-Kóreu í viðræðum um peninga í eigu Írans sem höfðu verið frystir í bönkum í Suður-Kóreu.

Þeir peningar voru á endanum notaðir til að greiða skuldir Írans í Suður-Kóreu og Japan.

Þá hafa ráðamenn í Bandaríkjunum, Bretlandi og Ísrael sakað Írana um að bera ábyrgð á drónaárás sem gerð var á olíuflutningaskip í eigu ísraelsks auðjöfurs. Tveir í áhöfn skipsins dóu í árásinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.