Erlent

Sektaður fyrir ólöglegt vopnabúr: Notaði skriðdrekann sem snjóplóg

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þýskir Panther-skriðdrekar á vígstöðvunum í Normandí árið 1944.
Þýskir Panther-skriðdrekar á vígstöðvunum í Normandí árið 1944. Getty/Harlingue/Roger Viollet

Þýskur eftirlaunaþegi hefur verið dæmdur í 14 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 37 milljónir króna í sekt fyrir að eiga umfangsmikið safn ólöglegra vopna. Meðal gripanna var skriðdreki, sem var fjarlægður af heimili mannsins af þýska hernum.

Maðurinn, sem er 84 ára, hefur ekki verið nafngreindur af lagalegum ástæðum en þegar rannsakendur gerðu leit á heimili hans í bænum Heikendorf árið 2015 fundu þeir meðal annars skriðdrekann og öfluga loftvarnabyssu. 

Í gær var maðurinn skikkaður til þess að gefa eða selja vopnin sem fundust innan tveggja ára en bandarískt safn er sagt hafa áhuga á skriðdrekanum, sem er af gerðinni Panther og var notaður í seinni heimstyrjöldinni.

Þá hafa þýskir safnarar lýst áhuga á öðrum munum úr safni mannsins, meðal annars skotvopnum.

Leit var gerð á heimili mannsins eftir að aðrir eftirlitsaðilar, sem höfðu heimsótt hann vegna stolinna listaverka frá tímum nasismans, gerðu viðvart um vopnabúrið.

 Það tók tuttugu hermenn um það bil níu klukkustundir að fjarlægja skriðdrekann af heimili mannsins, þar sem hann var ekki lengur á beltum. Nágrannar sögðust eitt sinn orðið vitni að því þegar maðurinn freistaði þess að nota skriðdrekann sem snjóplóg.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.