„Ef við værum óbólusett þjóð þá er auðvitað ljóst að við værum með miklu, miklu, miklu strangari takmarkanir á samkomum. Þannig að, í þeim skilningi erum við nú þegar að njóta góðs af því að vera komin með vel bólusetta þjóð, þó við ætlum að gera enn betur,“ sagði Bjarni í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Áfram eigi að leggja áherslu á bólusetningar. Ef í ljós komi að þær sýni árangur í baráttunni gegn alvarlegum veikindum verði forsendur fyrir hörðum innanlandsaðgerðum ekki fyrir hendi.
„Við eigum að halda áfram að njóta góðs af því að vera vel bólusett. Það væri ekkert meðalhóf í öðru.“
Hann telur þá gagnrýni stjórnarandstöðunnar á afléttingar takmarkana í síðasta mánuði komi á undarlegum tíma.
„Mér finnst þetta ódýrt, þegar menn koma á þessum tímapunkti, núna þegar í ljós kemur að bóluefnin geta ekki komið jafn vel í veg fyrir smit og við vorum að vonast til, þá finnst mér mjög ódýrt að koma núna og segja: „Þetta voru allt mistök og þetta sáum við allt fyrir.“ Þetta fólk hefði átt að segja þetta 1. júlí, að það hafi verið á móti því að við færum í afléttingar. Þá átti það að stíga fram og segja: „Hér er verið að taka skref sem við erum alfarið á móti, leggjumst gegn og teljum að verið sé að taka óverjandi áhættu.“ En það var ekki gert,“ sagði Bjarni.