Innlent

Hafnar því al­farið að hafa verið með ó­spektir við bólu­setninga­röðina

Jakob Bjarnar skrifar
Lögreglan fjarlægir Sólveigu Lilju af vettvangi fyrr í dag. Sólveig Lilja segir að hinar svokölluðu bólusetningar séu tilraun sem verið er að gera á mannkyni.
Lögreglan fjarlægir Sólveigu Lilju af vettvangi fyrr í dag. Sólveig Lilja segir að hinar svokölluðu bólusetningar séu tilraun sem verið er að gera á mannkyni. skjáskot af myndbandsupptöku RÚV

Lögregla var í morgun kölluð til vegna mótmæla konu við Heilsugæslustöð Reykjavíkur við Suðurlandsbraut því að verið væri að bólusetja þungaðar konur. Sú kona heitir Sólveig Lilja Óskarsdóttir og hún segir enga kæru liggja fyrir á hendur sér.

Vísir greindi frá handtökunni fyrr í dag en RÚV birti myndbandsupptöku af mótmælum Sólveigar Lilju og svo handtöku. Hún hefur verið látin laus og var í viðtali í Reykjavík síðdegis þar sem hún fullyrðir meðal annars að um sé að ræða tilraunir og þessar „svokölluðu“ bólusetningar séu að valda æxlunarfærum kvenna skaða. Hún segist hafa viljað koma þeim skilaboðum á framfæri við þær þunguðu konur sem voru að fara í bólusetningu.

Sólveig Lilja hafnar því að hafa verið með óspektir. Hún sé friðarsinni og það sé ekki satt sem fram hafi komið að fyrir liggi kæra á hendur sér. Svo er ekki. Hún segir það ósatt sem fram hefur komið í fréttum:

„Að ég hafi látið öllum illum látum og ófrískar konur hafi farið að gráta og óttast mig,“ segir Sólveig Lilja. Sú var ekki hennar upplifun og það sem meira er, hún hafi tekið atburðinn upp á myndband og geti fært fyrir því sönnur.

Sólveig Lilja var spurð nánar út í þetta atriði, svo virtist á óklipptu myndskeiðinu að þarna hafi verið um talsverð læti að ræða.

„Það var veist að mér og ég þurfti að verja mig. Já, lögreglan kom og tók mig, en ekki fyrir að hafa hátt á staðnum. Ég fékk enga kæru á mig og var sett inn á lögreglubíl og þegar ég neitaði að vera með grímu var sett á mig handjárn og sett á mig grímu. Grímur gera ekkert gagn. Veirur og bakteríur eru það litlar að þær fara þar í gegn,“ segir Sólveig Lilja sem vill meina að þöggun ríki um málið og erfitt sé að nálgast hinar réttu upplýsingar um hvernig í pottinn er búið.

Hlusta má á viðtalið við Sólveigu Lilju hér neðar.

Klippa: Reykjavík síðdegis - Sólveig Lilja Óskarsdóttir


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×