Erlent

For­­seti Túnis búinn að reka for­sætis­ráð­herrann og rjúfa þing

Eiður Þór Árnason skrifar
Hörð mótmæli brutust út á sunnudag í nokkrum borgum í Túnis þegar fólk mótmælti ört versnandi stöðu heilbrigðis-, efnhags- og félagsmála í landinu.
Hörð mótmæli brutust út á sunnudag í nokkrum borgum í Túnis þegar fólk mótmælti ört versnandi stöðu heilbrigðis-, efnhags- og félagsmála í landinu. Ap/Hassene Dridi

Kais Saied, forseti Túnis, rak í dag forsætisráðherrann og rauf þing en hann hyggst taka yfir stjórn landsins með aðstoð nýs forsætisráðherra. Stjórnarflokkurinn og þingforseti lýsa aðgerðunum sem valdaráni. 

Aðgerðir forsetans eru sagðar nýjasti vendipunkturinn í ört versnandi stjórnmálakreppu og ljóst að nú mun reyna verulega á stjórnarskrá landsins sem tók gildi eftir lýðræðisbyltinguna árið 2014. Kveður hún meðal annars á um lýðræðislega stjórnarhætti og valddreifingu milli forseta, forsætisráðherra og þings.

Í kjölfar fregnanna fylltust götur höfuðborgarinnar af fólki sem sýndu stuðning sinn í verki með fagnaðarlátum og bílflautum. Í frétt Reuters er stemningin sögð minna á þá sem ríkti í byltingunni árið 2011 en sú kveikti neista mótmælabylgju í Mið-Austurlöndum sem kennd er við Arabíska vorið.

Vaxandi óánægja með stjórnvöld

Ekki liggur fyrir hvort róttækar aðgerðir forsetans njóti víðtæks stuðnings í landinu en hann varaði í kvöld við því gripið yrði til vopna. Sagði Saied að herafli landsins myndi svara hverju byssuskoti í sömu mynt.

Áralöng stöðnun, pólitísk spilling og vaxandi atvinnuleysi er sagt hafa leitt til vaxandi óánægju meðal Túnisbúa, löngu áður en kórónuveirufaraldurinn skók efnahaginn og gerði illt verra. 

Mótmæli, sem skipulögð voru af aðgerðarsinnum með hjálp samfélagsmiðla, voru áberandi fyrr í dag en þau nutu ekki stuðnings neins af stóru stjórmálaflokkunum. Fram kemur í frétt Reuters að reiði mótmælenda hafi að mestu beinst að íslamska miðjuflokknum Ennahda sem er sá stærsti á þinginu. Kváðust margir mótmælendur vera fegin því að losna undir oki stjórnvalda.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.