Innlent

Foreldrar í uppnámi eftir að ógnandi hópur kastaði eggjum í þátt­tak­endur ReyCup

Eiður Þór Árnason skrifar
Hópurinn hefur setið um Laugarnesskóla og Laugarlækjaskóla
Hópurinn hefur setið um Laugarnesskóla og Laugarlækjaskóla Reykjavíkurborg

Mikil ókyrrð ríkir meðal keppenda og foreldra á fótboltamótinu ReyCup eftir að hópur ungmenna kastaði eggjum í keppendur á aldrinum 13 til 16 ára. Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu.

Framkvæmdastjóri mótsins segir að um skipulagðan verknað sé að ræða. Hópurinn hafi setið um gististaði keppenda í Laugarnesskóla og Laugarlækjaskóla frá klukkan tíu til miðnættis síðustu tvo daga og látið til skarar skríða.

Að sögn vitna voru aðilarnir ógnandi og á aldrinum 18 til 20 ára. Hafa ferðatöskur, föt og dýnur meðal annars orðið fyrir barðinu á eggjakastinu.

„Það versta er að börnin hafa einnig orðið fyrir þessari eggjaskothríð,“ segir Gunnhildur Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri ReyCup.

„Þetta er ótrúlega leiðinlegt. Við vonum auðvitað að þetta hætti og að þeir sem hafi orðið fyrir þessu fái að njóta restarinnar af mótinu.“

Gunnhildur segir að stjórn mótsins hafi átt í góðum samskiptum við lögreglu sem hafi undir höndum upptökur úr öryggismyndavélum á skólalóðunum. Stjórnin hvetur fólk til að hafa augun opin næstu daga og láta lögreglu vita ef það verður vart við hópinn.

Keppandi greindist smitaður í gær

Keppandi í 4. flokki á mótinu greindist með kórónuveiruna seint í gær og eru tvö lið á mótinu komin í sóttkví. Ekki er gert ráð fyrir að smitið hafi áhrif á framgang mótsins.

Gunnhildur segir vel gætt að sóttvörnum á mótinu og tekið mið af leiðbeiningum almannavarna. Eru takmarkanir nú með svipuðu fyrirkomulagi og þegar mótið var síðast haldið í fyrra. Sem hluti af því er meðal annars búið að takmarka aðgengi að öllu húsnæði, banna umferð annarra en keppenda og liðsstjóra á gististöðum og hvetja fólk til að dreifa sér vel um keppnissvæðið.  

Knattspyrnumótið stendur fram á sunnudag og segir Gunnhildur að skipuleggjendur fylgist nú vel með fyrirhuguðum sóttvarnaaðgerðum. Gert er ráð fyrir að aðgerðirnar verði kynntar að loknum ríkisstjórnarfundi klukkan 16 í dag. 


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.