Innlent

Gylfi sagður neita sök

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er sagður harðneita ásökunum um kynferðisbrot gegn barni. 
Gylfi Þór Sigurðsson er sagður harðneita ásökunum um kynferðisbrot gegn barni.  EPA-EFE/Peter Powel

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton í ensku deildinni og landsliðsmaður, er sagður harðneita þeim ásökunum sem bornar eru á hann. Hann er grunaður um kynferðisbrot gegn barni og var handtekinn á föstudaginn í Manchester í Englandi.

Þetta kemur fram á vef enska slúðurblaðsins The Sun, sem ekki getur nefnt Gylfa af lagalegum ástæðum. Áreiðanlegar heimildir Vísis staðfestu það í gær að um Gylfa sé að ræða en lögreglan í Manchester sagði í skriflegu svari við Vísi að hún gæti ekki nefnt manninn sem um ræðir.

„Ekki er hægt að nefna manninn vegna lagalegra ástæðna – en hann hefur þó verið nefndur í heimalandi sínu og á alþjóðlegum fréttaveitum,“ segir í frétt The Sun.

Samkvæmt heimildum The Sun hefur Gylfi harðneitað ásökununum en Everton hafi jafnframt ákveðið að bjóða honum ekki áframhaldandi samning. Everton greindi frá því í byrjun vikunnar að leikmaðurinn hafi verið leystur frá störfum.

Í tilkynningu frá lögreglunni í Manchester á mánudag kom fram að 31 árs gamall knattspyrnumaður hafi verið handtekinn grunaður um kynferðisbrot gegn barni. Everton greindi síðar frá því að um væri að ræða leikmann Everton. Tveir leikmenn Everton eru 31 árs, annars vegar Gylfi og hins vegar Englendingurinn Fabian Delph.

Daily Mail greindi frá því að á samfélagsmiðlum hafi birst þúsundir skilaboða sem sögðu ranglega að Delph hafi verið handtekinn. Þau skilaboð birtust í kjölfarið á því að á mánudagskvöld var tilkynnt að leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar hefði verið handtekinn.

Everton hefur síðan staðfest að Delph muni ekki fara með liðinu til Bandaríkjanna í æfingaferð þar sem hann er í sóttkví. Hann hafi greinst með kórónuveiruna og komist því ekki með liðinu til Flórída en liðið lagði af stað þangað í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×