Enski boltinn

Delph ekki með Everton í æfinga­ferð og rang­lega sagður hafa verið handtekinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fabien Delph í vináttuleik gegn Blackburn Rovers á dögunum.
Fabien Delph í vináttuleik gegn Blackburn Rovers á dögunum. Tony McArdle/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Everton hefur staðfest að Fabien Delph muni ekki fara með liðinu til Bandaríkjanna í æfingaferð þar sem hann er í sóttkví. Einnig var fjöldi skilaboða á samfélagsmiðlum sem hélt því ranglega fram að leikmaðurinn hefði verið handtekinn.

Everton gaf út tilkynningu í gærkvöld þess efnis að einhver nálægt hinum 31 árs gamla Delph hefði greinst með kórónuveiruna og því væri leikmaðurinn í sóttkví. Hann kæmist því ekki til Flórída með liðinu en það lagði af stað nú í dag.

„Delph, sem hóf undirbúning fyrir komandi tímabil þann 5. júlí og spilaði í báðum vináttuleikjum félagsins – þar á meðal í 1-0 sigrinum gegn Blackburn Rovers á laugardag – mun halda áfram undirbúningi sínum um leið og hann lýkur sóttkví,“ segir í yfirlýsingu Everton.

Daily Mail greindi frá því að á samfélagsmiðlum höfðu birst þúsundir skilaboða sem sögðu ranglega að Delph hefði verið handtekinn.  Þau skilaboð birtust í kjölfarið á því að á mánudagskvöld var tilkynnt að leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar hefði verið handtekinn.

Sama kvöld staðfesti Everton að um væri að ræða leikmann félagsins og í gær staðfestu heimildir Vísis að um væri að ræða Gylfa Þór Sigurðsson.

Sjá einnig: Gylfi Þór sá sem var hand­tekinn

„Gylfa var sleppt gegn tryggingu. Lögreglan í Manchester segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að hún geti ekki greint frá því um hvern sé að ræða. Í yfirlýsingu lögreglu til fjölmiðla í Bretlandi segir að 31 árs gamall maður hafi verið handtekinn gruns um kynferðisbrot gegn barni. Breskir fjölmiðlar segjast ekki geta nafngreint manninn af lagalegum ástæðum,“ segir í frétt Vísis um málið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.