Umfjöllun og viðtöl: Valur - Þróttur Reykja­vík 6-1 | Stórsigur á Hlíðarenda

Sverrir Mar Smárason skrifar
Valskonur eru enn á toppi Pepsi Max deildarinnar.
Valskonur eru enn á toppi Pepsi Max deildarinnar. Vísir/Elín Björg

alur og Þróttur R. mættust í Pepsi Max deild kvenna á Origo-vellinum við Hlíðarenda í kvöld. Topplið Vals var of stór biti fyrir Þróttara og niðurstaðan 6-1 sigur heimakvenna.

 Fyrir leikinn voru Valsstúlkur á toppnum en lið Þróttar sat í 4.sæti deildarinnar. Þróttur var án þriggja lykilmanna en þær Ólöf Sigríður, Catherine Cousins og Lorena Yvonne voru allar utan hóps í dag.

Fyrri hálfleikurinn fór rólega af stað en eftir sjö mínútna leik fékk svo Dani Rhodes fyrsta góða færi leiksins. Mist Edvardsdóttir hitti þá ekki boltann í tilraun sinni að hreinsa frá og Dani skallaði í slá gegn opnu marki.

Það voru svo Valsstúlkur sem tóku yfir leikinn og skoruðu fyrsta markið á 18.mínútu. Cyera Makenzie Hintzen með góða stungusendingu inn fyrir vörn Þróttar, Ída Marín Hermannsdóttir var fyrst til og potaði boltanum fram hjá Írisi Dögg í marki Þróttar. Valur hafði svo öll völd á vellinum eftir markið en gegn gangi leiksins jafnaði Þróttur eftir ótrúleg varnarmistök. Jelena Tinna sendi langa sendingu fram völlinn sem Sandra, markvörður Vals, þurfti að koma út í en á undan henni varð Guðrún Gyða Haralz. Guðrún skoraði þó ekki strax því fyrst átti Mist Edvardsdóttir eftir að reyna hreinsun sem fór ekki lengra en beint í fætur Guðrúnar. Guðrún var yfirveguð, lagði boltann stöngin inn og jafnaði þar með metin.

Við jöfnunarmarkið vaknaði lið Þróttar örlítið til leiks og allt stefndi í að liðin færu jöfn inn í hálfleik en það breyttist einungis mínútu áður en dómarinn flautaði liðin til búningsherbergja. Íris Dögg átti slæma sendingu út til hægri og Mary Alice Vignola komst í boltann. Mary Alice og Cyera Makenzie spiluðu flottan þríhyrning við teig Þróttar áður en Mary Alice skaut að marki og boltinn í netið með viðkomu í Sóleyju Maríu, varnarmanni Þróttar. 2-1 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn fór, líkt og sá fyrri, rólega af stað en það átti heldur betur eftir að breytast því á 57.mínútu fengu Valsstúlkur hornspyrnu. Dóra María tók spyrnuna sem fór í gegnum allan pakkann og á Láru Kristínu Pedersen sem stóð alein á fjær stöng og lagði boltann inn og jók forystu Vals í tvö mörk.

Valur stýrði leiknum eftir þriðja mark sitt og virtist sem leikmenn Þróttar hálfpartinn gáfust upp því Valur áttu eftir að skora þrjú mörk til viðbótar.

Á 68.mínútu átti Sólveig Larsen gott hlaup aftur fyrir vörn Þróttar. Hún vann baráttuna við Jelenu Tinnu og kom boltanum fyrir markið þar sem Elín Metta var óvölduð og skoraði auðveldlega. Arna Eiríksdóttir bætti svo við fimmta marki Vals á 79.mínútu með sinni fyrstu snertingu í leiknum eftir að hafa verið inni á vellinum í að hámarki tuttugu sekúndur. Fanndís Friðriksdóttir tók þá hornspyrnu sem Arna skallaði örugglega í netið af fjær stönginni og Valsstúlkur komnar í 5-1.

Ekki var öllu lokið enn því í uppbótartíma var Fanndís með boltann við miðjan völl, sá hlaup í gegn frá Clarissu Larisey og sendi frábæra sendingu beint á hana. Clarissa tók vel á móti boltanum og kláraði fallega fram hjá Írisi Dögg og lokatölur 6-1.

Af hverju vann Valur?

Valskonur voru bara töluvert betri í leiknum í kvöld fyrir utan stuttan kafla í fyrri hálfleik. Þær börðust fyrir sínu, spiluðu flottan fótbolta og náðu að nýta alla sína styrkleika gegn Þrótti. Í seinni háfleik þegar Þróttarar virtust missa móðinn þá settu Valur í næsta gír og rúlluðu yfir þær.

Hverjar stóðu upp úr?

Það er í raun erfitt að velja það. Mary Alice átti góðan leik í vinstri bakverðinum, ógnaði sífellt fram á við og skoraði gott mark. Cyera Makenzie átti tvær stoðsendingar líkt og Fanndís Friðriksdóttir sem kom af bekknum. Elín Metta skoraði og bjó til mörg færi fyrir samherja sína. Eins og ég segi, erfitt að velja úr.

Hvað gekk illa?

Það gekk allt illa hjá Þrótti í síðari hálfleik. Þær hættu að tala, hlaupa og berjast. Hættu að halda boltanum og leysa pressu Vals. Þær í raun gáfust upp og sáu ekki fram á að þær gætu jafnað.

Varnarleikur Vals gekk illa í nokkrum atvikum í fyrri hálfleik en Þróttur náðu aðeins að nýta það í eitt skipti.

Hvað gerist næst?

Valur situr áfram á toppi deildarinnar og spila næst gegn Þór/KA á Akureyri laugardaginn 24.júlí.

Þróttur fellur niður í 5.sæti eftir tapið í kvöld og tekur á móti Keflavík sem eru komnar í fallsæti þriðjudaginn 27.júlí.

Nik Chamberlain: Hörku leikur fram að þriðja markinu

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttara, var eðlilega ósáttur með stórt tap síns liðs.Vísir/Hulda Margrét

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, var eðlilega ósáttur í leikslok en þó aðallega með það hvernig sitt lið endaði leikinn.

„Ég er ósáttari við það hvernig þetta endaði. Um leið og þær skoruðu þriðja markiðféll orkustigið og við settum hausinn niður. Mér er alveg sama þó svo að lið skori sex mörk á okkur ef hitt liðið spilar bara vel, þær spiluðu vel síðasta hálftímann en við gerðum þetta auðvelt fyrir þær. Við hættum að tala og vinna vinnuna og það er það sem pirraði mig í dag“ sagði Nik.

Þróttur spilaði án þriggja lykilmanna í kvöld og liðið virtist sakna þeirra.

„Caty kom útaf á móti FH og við litum betur út eftir það. Bella kom inn í dag og spilaði vel. Við héldum boltanum vel í fyrri hálfleik. Bella var flott á boltanum og Guðrún Gyða kom inn fyrir Ollu og skoraði svo mér fannst þessar breytingar ekki veikja okkur. Þetta var hörku leikur fram að þriðja markinu. Ég er ánægður með breiddina og þá leikmenn sem komu inn í kvöld. Það sem veikti okkur kannski mest var að missa Andreu úr sókninni en hún spilaði bakvörð fyrir Lorenu“ sagði Nik að lokum.

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira