Erlent

„Þýska á vart orð yfir þær hörmungar sem riðið hafa yfir“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Merkel heimsótti þorpið Schuld og virti fyrir sér eyðilegginguna.
Merkel heimsótti þorpið Schuld og virti fyrir sér eyðilegginguna. Christof Stache/AP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, heimsótti í dag þýska þorpið Schuld, sem hefur orðið illa úti í flóðum sem riðið hafa yfir í landinu og víðar í vesturhluta Evrópu á síðustu dögum. Heildarfjöldi látinna er nú kominn yfir 180.

Merkel fór um þorpið og skoðaði ónýtar byggingar og aðra innviði, og gekk um stræti þess, full af aur og ýmiskonar braki sem flóðin hafa hrifið með sér.

Eftir heimsóknina sagðist Merkel hafa öðlast raunverulega sýn á það sem hún kallaði skuggalegt og fjarstæðukennt ástand.

„Þetta er sláandi. Þýska á vart orð yfir þær hörmungar sem riðið hafa yfir,“ hefur AP-fréttaveitan eftir kanslaranum, sem sagði stjórnvöld ætla að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að svæðin sem flóðin hafa haft áhrif á geti rétt úr kútnum sem fyrst.

Þá sagði hún að á miðvikudag stæði til að ríkisstjórn hennar myndi samþykkja að veita fé í neyðaraðstoð til handa íbúum svæðisins. Hún sagði Þýskalands blessunarlega hafa fjárhagslegt bolmagn til þess að bregðast við hörmungunum, sem margir þjóðarleiðtogar og sérfræðingar segja stafa af loftslagsbreytingum, þó það hafi ekki enn verið staðfest með óyggjandi hætti.

„Þýskaland er sterkt land og við getum boðið þessum náttúruöflum birginn ef litið er til styttri tíma, en einnig til lengri tíma, með ákvörðunum sem taka aukið tillit til náttúrunnar og loftslagsins en við höfum gert á undanförnum árum. Það verður einnig nauðsynlegt,“ sagði Merkel.

Frá Bad Muenstereifel í vesturhluta Þýskalands.Oliver Berg/dpa via AP


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×