Erlent

Boris Johnson er hættur við að sleppa sóttkví

Árni Sæberg og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Boris Johnson ætlaði að sleppa sóttkví, þrátt fyrir að hafa verið útsettur fyrir smiti, og fara í dagleg Covid-próf í staðin. Hann hefur nú hætt við það. 
Boris Johnson ætlaði að sleppa sóttkví, þrátt fyrir að hafa verið útsettur fyrir smiti, og fara í dagleg Covid-próf í staðin. Hann hefur nú hætt við það.  Leon Neal/Getty

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Rishi Sunak fjármálaráðherra voru útsettir fyrir smiti eftir að þeir funduðu með Sajid Javid heilbrigðisráðherra, sem reyndist smitaður af Covid-19. Upphaflega ætluðu ráðherrarnir tveir ekki að fara í sóttkví.

Javid greindist smitaður af veirunni í gærmorgun og fór strax í einangrun. Hann hafði farið í einkennasýnatöku eftir að hafa fundið fyrir slappleika og hvatti alla sem fundið hafa fyrir einkennum til að fara í sýnatöku. Fréttastofa Sky greinir frá. 

Strax kom í ljós að Johnson og Sunak hafi verið útsettir fyrir smiti en fyrst var ætlunin að þeir færu ekki í sóttkví heldur færu í Covid-19 próf daglega í staðinn.

Í kjölfar þessa voru þeir harðlega gagnrýndir og nú hefur það verið tilkynnt að þeir muni eftir allt saman fara í sóttkví. Þetta þýðir að forsætisráðherrann sjálfur verður í sóttkví þegar miklar afléttingar á takmörkunum taka í gildi á mánudag, en dagurinn hefur fengið viðurnefnið Frelsisdagurinn eða „freedom day.“ Flestum takmörkunum á Englandi verður aflétt þá.

Keir Starmer, leiðtogi verkamannaflokksins, sagði í dag að þessi U-beygja stjórnarinnar sé til marks um að mikil ringulreið ríki innan ríkisstjórnarinnar. Johnson og Sunak hafi enn og aftur verið gripnir við það að halda að reglurnar gildi ekki um þá.

„Almenningur hefur gert svo margt til að fylgja þessum reglum. Á tímum sem þessum, þar sem við verðum að viðhalda trúnni á að sóttkví virki munu foreldrar, vinnandi fólk og fyrirtæki velta því fyrir sér hvað sé eiginlega í gangi á Downingstræti,“ sagði Starmer í dag.

„Hegðun forsætisráðherrans skapar ringulreið, kemur illa út fyrir ríkisstjórnina og hefur hræðilegar afleiðingar fyrir breskan almenning.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.