Innlent

Keflavíkurflugvöllur að nálgast þolmörk

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum.
Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum. Vísir/Arnar

Aðstoðaryfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli segir flugvöllinn að nálgast þolmörk. Suma daga þurfi lögregla á flugvellinum að taka á móti þrjú þúsund farþegum á einum og hálfum klukkutíma.

Mikil örtröð var á Keflavíkurflugvelli snemma í morgun. Raðir hófu að myndast fyrir klukkan fimm en þá voru enn um þrír tímar í að flestar flugvélar legðu af stað. 47 flugvélar eru á áætlun frá vellinum í dag. 

Arngrímur Guðmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að eftir sem áður séu það kröfur um ýmis vottorð vegna kórónuveirufaraldursins sem tefji innritun á flugvellinum.

„Flugfélögin hafa biðlað til farþega að mæta fyrr á morgnana og öryggisleitin hefur opnað fyrr á morgnana. Þannig að það er verið að reyna að lengja þann tíma sem verið er að taka á móti farþegum í innritun til að  minnka raðirnar. En farþegar eru flestir að mæta á svipuðum tíma sem gerir það að verkum í brottför að þaðmyndast miklar raðir,“ segir Arngrímur.

Þá verður einnig mikið að gera í komusal Leifsstöðvar en 48 flugvélar lenda á Keflavíkurflugvelli í dag. Sóttvarnalæknir hefur boðað hertar aðgerðir á landamærum og sagt kröfu um neikvætt PCR-próf við komu til landsins koma til greina.

„Það er náttúrulega í höndum sóttvarnalæknis að taka ákvarðanir á landamærum en hins vegar er það nokkuð ljóst að þau leka,“ segir Arngrímur.

„Þó að farþegar sem eru bólusetir þurfi að framvísa PCR-vottorðum, í sjálfu sér tefur það ekki mikil fyrir afgreiðslunni hjá okkur. Þannig að nei, það myndi ekki hafa nein veruleg áhrif á okkur.“

Alveg á grensunni suma daga

Heilt yfir hafi gengið vel að taka á móti auknum ferðamannastraumi á flugvellinum. Eins og staðan er núna sé flugvöllurinn þó að nálgast þolmörk.

„En við erum með þessa stóru daga í hverri viku þar sem mikill fjöldi farþega kemur til landsins á sama tíma. Og það er ljóst að einhverja daga í viku, sérstaklega í eftirmiðdaginn, þá myndast raðir í flugstöðinni því það er stutt á milli flugvéla og mikill fjöldi. Við erum kannski að taka á móti hátt í þrjú þúsund farþegum á einum og hálfum klukkutíma,“ segir Arngrímur.

„En við erum kannski komin ansi nálægt toppnum. Og þetta eru ákveðnir dagar í hverri viku sem eru algjörlega á þolmörkum hjá okkur öllum sem starfa á flugvellinum. Þannig að það þyrfti þá að breyta með einhverjum hætti aðstöðu varðandi vottorð og fleira til að auka afköstin. En suma daga erum við alveg á grensunni.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.