Íslenski boltinn

„Eins og draumur að rætast“

Sverrir Már Smárason skrifar
Álfhildur og stöllur fagna sigrinum.
Álfhildur og stöllur fagna sigrinum. vísir/hulda margrét

„Þetta er bara geggjað, þetta er eins og draumur að rætast,“ sagði Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði kvennaliðs Þróttar, eftir 4-0 sigur síns liðs gegn FH í undanúrslitum Mjólkurbikars kvenna í kvöld.

FH stúlkur leika í Lengjudeild kvenna á þessu tímabili en eru þó með hörku lið og stríddu Þrótturum í kvöld sem standa í 4.sæti Pepsi-Max deildarinnar.

„Einmitt, þetta var svolítið erfitt og strembið í byrjun. Í fyrri hálfleik og í byrjun seinni hálfleiks. Þær voru að stíga hátt upp á okkur og pressa en ég held að það sem hafi gert útslagið var að við vildum þetta bara meira og vorum að fara í alla bolta. Við gáfumst ekkert upp og náðum síðan öðru markinu,“ sagði Álfhildur.

Fjórir sóknarmenn skoruðu mörkin fjögur fyrir Þrótt í kvöld. Þrjár þeirra eru lykilmenn liðsins, þær Linda Líf, Andrea Rut og Ólöf Sigríður, en sú fjórða, Dani Rhodes, lenti á Íslandi í gærmorgun.

„Við vissum ekkert hvernig hún væri en hún kom gríðarlega vel inn í þetta og stóð sig ógeðslega vel,“ sagði Álfhildur um nýjasta leikmann liðsins, Dani Rhodes.

Álfhildur er uppalinn Þróttari og er í dag fyrirliði liðsins. Þróttur mun þann 1.október leika sinn fyrsta bikarúrslitaleik.

„Ég er ógeðslega stolt af liðinu mínu og bara geggjað að fá að leiða þær út í úrslitaleikinn, mjög góð tilfinning,“ sagði Álfhildur að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.