Erlent

Þekktasti blaðamaður Hollands dáinn eftir skotárás í síðustu viku

Samúel Karl Ólason skrifar
Peter R. de Vries hafði lengi barist gegn skipulagðri glæpastarfsemi í Amsterdam.
Peter R. de Vries hafði lengi barist gegn skipulagðri glæpastarfsemi í Amsterdam. AP/Peter Dejong

Peter R. de Vries, þekktur hollenskur rannsóknarblaðamaður er látinn. Hann dó í dag eftir að hafa verið skotinn á götu út í Amsterdam í síðustu viku, þann 6. júlí. De Vries dó af sárum sínum í dag en hann var 64 ára gamall.

RTL, sjónvarpsstöð sem de Vries vann reglulega fyrir tilkynnti dauða hans í dag.

Þar segir að hann hafi dáið umkringdur ástvinum sínum. Þá eru þeir sem virtu de Vries hvattir til að halda áfram baráttu hans fyrir réttlæti.

Í yfirlýsingunni segir einnig að de Vries hafi lifað eftir þeirri sannfæringu sinni að berjast fyrir frelsi.

Í frétt AP segir að de Vries hafi verið þekktasti blaðamaður Hollands. Hann hafi lengi barst gegn óréttlæti í Hollandi og hafi verið þyrnir í síðu glæpagengja í sífellt harðnandi undirheimi Amsterdam.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, vottaði de Vries virðingu sína á Twitter í dag. Hann sagði blaðamanninn hafa verið óttalausan í baráttu sinni fyrir sannleika og réttlæti.

De Vries var skotinn skömmu eftir að hann var í umræðuþætti í sjónvarpi. Hann hafði nýlega verið ráðgjafi vitnis sem hafði borið vitni í réttarhöldum gegn meintum foringja glæpagengis sem lögreglan hefur lýst sem hópi morðingja.

Tveir hafa verið handteknir vegna skotárásarinnar. Lögreglan segir 21 árs Hollending vera grunaðan um að skjóta blaðamanninn og 35 ára Pólverji er grunaður um að hafa ekið flóttabílnum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.