Sérsveitarmennirnir voru meðal þeirra sem reyndu að verja bæinn gegn sókn Talibana. Þeir enduðu þó umkringdir og kláruðu þeir skotfæri sín. Í kjölfar þess gáfust þeir upp, samkvæmt frétt CNN. Blaðamenn miðilsins hafa skoðað myndbönd af fjöldamorðinu og rætt við sjónarvotta.
Í einu myndbandi sem hefur verið í dreifingu er almennur borgari að kalla eftir því að Talibanar skjóti hermennina ekki.
„Ekki skjóta þá, ekki skjóta þá. Ég bið ykkur að skjóta þá ekki,“ sagði maðurinn. Skömmu seinna gagnrýndi hann þá fyrir að myrða aðra Afgana.
Myndbandið hér að neðan getur vakið óhug lesenda.
CNN reports 22 #Afghan commandos, who were killed by the #Taliban in #Faryab last month, were executed after they surrendered. Disturbing video shows they all walked out out, their hands raised high, then gunfires&chants of Allah Akbar, were heard, seconds later all were dead. pic.twitter.com/VigUVfQX6L
— Sharif Hassan (@MSharif1990) July 13, 2021
Eins og fram kemur í frétt CNN er fjöldamorðið alls ekki í takt við áróður Talibana um að þeir séu tilbúnir til að leyfa hermönnum að gefast upp. Þeir hafa jafnvel birt myndbönd af sér greiða hermönnum fyrir að leggja frá sér vopn.
Talsmaður Talibana sagði myndböndin af fjöldamorðin fölsuð og áróður ríkisstjórnar Afganistans svo hermenn gæfust ekki upp. Hann staðhæfði við CNN að 24 sérsveitarmenn sem hefðu verið handsamaðir í Faryab-héraði, þar sem Dawlat Abad er, væru enn í haldi en færði þó engar sannanir fyrir því.
Varnarmálaráðuneyti Afganistans segir enga sérsveitarmenn í haldi. Þeir hefðu allir verið myrtir.
Nokkur vitni sem blaðamenn CNN ræddu við sögðu sérsveitarmennina hafa verið myrta. Þeir hafi verið fluttir út á götu og skotnir. Einn maður sagði hermennina hafa barist við Talibana í um tvo tíma. Þeir hafi svo orðið skotfæralausir og að aðstoð og loftárásir sem þeir hefðu kallað eftir hefði ekki borist.
Sjónarvottur sagði CNN að margir vígamannanna sem hefðu skotið hermennina hefðu ekki verið frá Afganistan. Heimamenn hefðu ekki skilið þá þegar þeir töluðu sín á milli.
Talibanar hafa lagt undir sig fjölmörg héruð Afganistans á undanförnum mánuðum, samhliða brottför bandarískra hermanna frá landinu, og hefur stjórnarherinn lítið getað staðið í hárinu á þeim. Sérsveitarmenn eins og þeir sem voru skotnir í Dawlat Abad, eru betur þjálfaðir og búnir en almennir hermenn.
Embættismenn á svæðinu hafa gagnrýnt harðlega að þeir hafi verið sendir til þorpsins án nokkur liðsauka eða stuðnings. Faðir eins hermannanna segir að þeir hafi kallað eftir árásum úr lofti en það hafi aldrei gerst.
Hér í frétt CNN má sjá rætt við faðirinn sem heitir Hazir Azimi og er fyrrverandi herforingi í stjórnarhers Afganistans.
"'Surrender, commandos surrender,' a Taliban fighter yells. Seconds later, a group of soldiers from the Afghan elite Special Forces Unit walk out, hands raised and ready to concede. Before they have a chance to speak, they are shot execution style." @amcoren @CNN pic.twitter.com/EGb8MxHGlK
— Natasha Bertrand (@NatashaBertrand) July 12, 2021