Umfjöllun og viðtöl: Sel­foss - Kefla­vík 1-0 | Selfoss aftur á sigurbraut

Andri Már Eggertsson skrifar
Selfoss hefur ekki unnið í síðustu fimm leikjum sínum.
Selfoss hefur ekki unnið í síðustu fimm leikjum sínum. Vísir/Hulda Margrét

Selfoss eru komnar aftur á sigurbraut eftir að hafa ekki unnið í fimm síðustu leikjum sínum. Brenna Lovera var mætt aftur í liðið eftir meiðsli og launaði félaginu það með sigurmarki leiksins. 1-0 

Tíundu umferð lauk í kvöld með leik Selfoss og Keflavíkur á Jáverk vellinum. Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega.

Ekki var langt um liðið þegar Unnur Dóra Bergsdóttir fékk sendingu fyrir utan teig sem hún þrumaði viðstöðulaust í stöngina.

Selfoss hélt síðan betur í boltann og sköpuðu þær sér hættulegri sóknir framan af fyrri hálfleik en síðan virtist pendúlinn snúast við og Keflavík fóru að ná betri stjórn á leiknum.

Hornspyrnur Keflavíkur setti heimakonur í mikil vandræði og mátti engu muna þegar þær björguðu á línu eftir góðan skalla frá Elínu Helgu Karlsdóttur.

Það dró til tíðinda eftir tæplega fjörutíu mínútna leik þegar sending Barbáru Sólar Gísladóttur rataði á Brennu Lovera sem snéri af sér Celine Rumpf og lagði boltann í markið.

Selfoss fór því með eins marks forskot inn í hálfleikinn.

Selfoss voru talsvert sterkari aðilinn í síðari hálfleik. Þær héldu mikið í boltann sem gerði það að verkum að Keflavík komst nánast ekkert yfir miðju í seinni hálfleik.

Bæði Hólmfríður og Caity Heap fengu sitthvort dauðafærið til að bæta við forystu Selfoss þegar líða tók á seinni hálfleikinn en þær fóru illa með þau færi.

Undir lok leiks fóru Keflvíkingar aðeins að færa sig ofar á völlinn en það dugði skammt og eins marks sigur Selfoss niðurstaðan.

Af hverju vann Selfoss

Selfyssingar virtust anda léttar þegar þær komust yfir undir lok fyrri hálfleiks. Selfoss voru með mikla yfirburði í síðari hálfleik. Þær héldu vel í boltann og sköpuðu sér góð færi sem þær nýttu þó ekki en eitt mark dugði liðinu til sigurs í kvöld.

Hverjar stóðu upp úr?

Selfoss endurheimti Brenna Lovera aftur í liðið eftir að hún hafi misst úr vegna meiðsla. Hún lét til sín taka og skoraði laglegt mark skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks.

Caity Heap átti góðan leik á miðju Selfoss. Hún stjórnaði spilinu vel og fékk sjálf góð færi sem hún hefði getað nýtt betur. 

Hvað gekk illa

Keflavík voru í miklum vandræðum með að halda í boltann og koma sér á síðasta þriðjung. Síðari hálfleikur fór að mestu fram á vallarhelmingi Keflavíkur og virtist vera lítil áhugi hjá Keflavík að koma boltanum fram völlinn. 

Hvað gerist næst?

Selfoss leikur sinn þriðja heimaleik í röð næstkomandi þriðjudag þar sem þær mæta Þór/KA klukkan 18:00.

Keflavík fer á Nettóvöllin þar sem þær mæta Stjörnunni klukkan 20:00 næsta þriðjudag.

„Það var ljóst fyrir leik að liðið sem myndi skora fyrsta markið í kvöld myndi vinna leikinn"

Gunnar var svekktur með tap kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Gunnar Magnús Jónsson þjálfari Keflavíkur var svekktur með 1-0 tap í leiks lok.

„Þetta var baráttu leikur. Í svona leik þá er mikilvægt að ná inn fyrsta markinu sem kom á daginn að það skildi liðin að."

Eftir að Selfoss komst yfir voru þær talsvert sterkari aðilin og áttu auðveldara með að halda í boltann.

„Í baráttu leikjum eins og þessum skiptir þetta fyrsta mark svo gríðalega miklu máli og fyrir leik var það bara spurningin liðið sem myndi skora fyrsta markið færi með sigurinn af hólmi."

Keflavík sýndi smá vilja til að jafna leikinn en það var alveg undir leiks lok

„Selfoss pressuðu okkur vel sem setti okkur í vandræði, undir lokinn náðum við að leysa það betur og koma okkur ofar á völlinn."

Næsti leikur hjá Gunnari og stelpunum hans í Keflavík er gegn Stjörnunni á heimavelli.

„Það er margt jákvætt sem við tökum úr leik kvöldsins og hlökkum við til að fara til Keflavíkur og mæta Stjörnunni," sagði Gunnar Magnús að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira