Erlent

Xi og Kim heita nánari samvinnu

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un og Xi Jinping, leiðtogar Norður-Kóreu og Kína, árið 2018.
Kim Jong Un og Xi Jinping, leiðtogar Norður-Kóreu og Kína, árið 2018. EPA/KCNA

Xi Jinping og Kim Jong Un, ráðendur Kína og Norður-Kóreu, hafa heitið því að auka samvinnu ríkjanna. Það gerðu þeir í skilaboðum sem þeir sendu hvorum öðrum á dögunum. Í skilaboðum til Xi sagði Kim að náið samband Norður-Kóreu og Kína væri nauðsynlegt í ljósi óvinveittra erlendra afla.

Í skilaboðum Xi til Kim sagði forsetinn að samvinna ríkjanna myndu ná nýjum hæðum.

Þetta kemur fram í fréttaflutningi KCNA, opinberrar fréttaveitu Norður-Kóreu, en þar er meðal annars haft eftir Kim að „óvinveitt öfl“, sem eru væntanlega Bandaríkin, séu orðin örvæntingarfull í aðgerðum sínum.

Sextíu ár eru liðin frá því að Norður-Kórea og Kína skrifuðu undir vináttusáttmála. Kína er svo gott sem eini viðskiptafélagi Norður-Kóreu og hefur veitt ríkinu einangraða mikla aðstoð í gegnum árin. Viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir vegna kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlana Norður-Kóreu hafa gert ríkið enn háðara Kína.

Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni fjölluðu báðir leiðtogarnir um gott samband ríkjanna í sextíu ár.

Viðræður Norður-Kóreu og Bandaríkjanna strönduðu í forsetatíð Donalds Trump og hafa ekki haldið áfram eftir að Joe Biden tók við embætti. Þá er sömuleiðis talið mögulegt að Covid-19 sé í útbreiðslu í Norður-Kóreu, þrátt fyrir að ríkisstjórn Kim segir engan hafa greinst smitaðan þar.

Þegar faraldur nýju kórónuveirunnar hófst lokaði Kim landamærum Norður-Kóreu og Kína og hefur sú lokun komið verulega niður á hagkerfi Norður-Kóreu. Refsiaðgerðir og náttúruhamfarir hafa gert það sömuleiðis og er talið að hungursneyð geysi í landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×