Erlent

Vilja skjóta 23 eldflaugum á smástirni

Samúel Karl Ólason skrifar
Long March 5 eldflaug skotið út í geim frá Kína í fyrra.
Long March 5 eldflaug skotið út í geim frá Kína í fyrra. EPA

Kínverskir vísindamenn vilja senda 23 Long March 5 eldflaugar, þær öflugustu sem framleiddar eru í Kína, til að kanna hvort hægt sé að nota þær til að breyta stefnu smástirna. Markmið vísindamannanna er að komast að því hvort hægt væri að bjarga jörðinni með þessum hætti, ef smástirni stefndi á plánetuna okkar.

Rannsókn vísindamannanna leiddi í ljós að mögulega væri hægt að láta sérstök geimför sem eldflaugarnar eiga að bera, skella samtímis á smástirni og breyta stefnu hans þannig.

Útreikningar vísindamannanna taka mið af smástirninu Bennu, sem er á braut um sólu en smástirnið er tæpir 400 metrar að breidd. Til samanburðar, þá var smástirnið sem gerði út af við risaeðlurnar um tíu kílómetrar að breidd.

Eins og bent er á í frétt Reuters eru Long March 5 eldflaugarnar lykilþáttur í ætlunum Kínverja í geimnum og voru þær til að mynda notaðar til að koma fyrsta hluta geimstöðvar Kína á braut um jörðu og fyrstu geimförunum þangað.

Vísindamenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA, að því að hefja sambærilega tilraun á næsta ári. Þá á að skjóta geimfari að smáum loftsteini. Ári seinna, þegar eldflaugin nær skotmarki sínu, á að stefna henni á lofsteininn, brotlenda henni þar og sjá hvort breyting verði á stefnu smástirnisins.

Frekari upplýsingar um það verkefni má finna hér á vef NASA.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×