Erlent

Litlar sem engar líkur á að finna fólk á lífi

Samúel Karl Ólason skrifar
Lík 36 hafa fundist og 109 er enn saknað.
Lík 36 hafa fundist og 109 er enn saknað. AP/Lynne Sladky

Líkamsleifar átta manns fundust í gær í rústum fjölbýlishúss sem hrundi nýverið í bænum Surfside í Flórída. Enn er rúmlega hundrað manns saknað og ráðamenn sem stýra björgunarstörfum í rústunum virðast telja litlar líkur á því að finna fólk á lífi í rústunum.

Enn sem komið er hefur enginn fundist á lífi síðan húsið hrundi óvænt aðfaranótt 24. júní.

Lík 36 hafa fundist og 109 er enn saknað, þó ekki sé staðfest að allir þeirra hafi verið í Champlain Towers South þegar hluti hússins hrundi. Leitin hefur staðið yfir í fjórtán daga og hefur rigning og rok vegna óveðursins Elsu komið niður á leitarstarfi.

AP fréttaveitan segir forsvarsmenn leitarinnar enn tala um að finna að fólk á lífi en tónn þeirra hafi breyst töluvert. Til marks um það hafi einn yfirmanna lögreglunnar sagt í gærkvöldi að helsta verkefni leitarmanna væri að veita aðstandendum þeirra sem saknað er svör.

Sambærilegur tónn var í ummælum slökkviliðsstjóra Miami -Dade sýslu sem sagði að verið væri að leita að opnum rýmum í rústunum sem fólk gæti verið í en útlitið væri ekki gott. Leitarmenn hefðu engar jákvæðar vísbendingar séð.

Hann sagði nánast engar líkur á því að finna einhvern á lífi.

Sérfræðingar sem hafa skoðað rústirnar segjast hafa séð merki um galla í grunni fjölbýlishússins, sem var þrettán hæðir. Mögulega hafi byggingin verið gölluð.

Eigendur hússins vissu af því að þörf var á umfangsmiklum og kostnaðarsömum viðgerðum en húsið var byggt árið 1981. Stjórn hússins hafði sent byggingarfulltrúa skýrslu sem gerð var um ástand hússins og sá hafði sagt húsið í mjög góðu ástandi.


Tengdar fréttir

Tala látinna komin yfir þrjátíu í Surfside

Fjögur lík fundust í rústum íbúðablokkarinnar sem hrundi í bænum Surfside á Flórída í Bandaríkjunum og er tala látinna nú komin upp í 32. Enn er á annað hundrað manns saknað.

Enn fjölgar þeim sem finnast undir rústum blokkarinnar í Surfsi­de

Þrjú lík hafa fundist til viðbótar undir rústum íbúðablokkarinnar sem hrundi fyrirvaralaust í bænum Surfside á Flórída fyrir rúmri viku. Er heildartala látinna nú komin í 27 en 118 íbúa er enn saknað og er talið ólíklegt að nokkur finnist á lífi.

Björgunar­að­gerðum hætt í bili og húsið verður rifið

Leit að þeim sem saknað er í rústum fjölbýlishússins sem hrundi í bænum Surfside á Flórída þann 24. júní hefur verið hætt tímabundið, þar sem rífa á það sem eftir stendur af húsinu. Enginn hefur fundist á lífi í rústunum frá því nokkrum klukkutímum eftir að byggingin hrundi.

Þrætur íbúa blokkarinnar töfðu viðgerðir

Meirihluti stjórnar húsfélags blokkarinnar sem hrundi í bænum Surfside á Flórída sagði af sér í skugga deilna um hvort ráðast ætti í viðgerðir á byggingunni í kjölfar skýrslu verkfræðinga sem leiddi í ljós skemmdir. Að minnsta kosti átján eru látnir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×