Erlent

Meiri­háttar skemmdir í­búða­blokkarinnar lágu fyrir

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Enn er 159 manns saknað eftir að tólf hæða íbúðabygging hrundi í Flórída.
Enn er 159 manns saknað eftir að tólf hæða íbúðabygging hrundi í Flórída. AP/Miami-Dade Fire Rescue

Verkfræðingar höfðu greint frá meiriháttar skemmdum á steypu íbúðablokkarinnar sem hrundi í bænum Surfside á Flórída fyrr í vikunni.

Bæjaryfirvöld í Surfside birtu nú nýlega verktakaskýrslu frá árinu 2018. Í henni kemur að enginn halli hafi verið á steypu sem var undir sundlaug í byggingunni. Steypan var flöt og varð það til þess að vatn úr sundlauginni safnaðist upp. Þessi misheppnaða vatnsheldni er talin hafa valdið skemmdum á burðarvirki byggingarinnar.

Óljóst er hvort þessar skemmdir hafi orðið til þess að byggingin hrundi, en þó er ljóst að byggingin þarfnaðist umfangsmikillar viðgerðar.

Api Aghayere, verkfræðingur við Drexel háskóla, sagði í samtali við AP fréttastofu að umfang tjóns byggingarinnar hafi verið áberandi. Þá segir hann að svæði fyrir ofan inngang byggingarinnar hafi verið í niðurníðslu og þarfnast viðgerðar strax vegna mögulegrar hættu.

Björgunarsveitir leita nú 159 manns sem talið er að liggi í rústum byggingarinnar, en að minnsta kosti fjórir eru látnir. 

Helsta áskorun björgunarfólks er eldur sem hefur kviknað í byggingunni og reykur sem honum fylgir. Eldurinn er talinn hafa kviknað út frá olíu sem lak frá þeim bílum sem krömdust í byggingunni. 

Aðstoðarslökkviliðsstjóri á svæðinu segir slökkviliðið vera að gera sitt allra besta. „Þetta er ekki skortur á úrræðum, þetta er skortur á heppni,“ segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×