Erlent

Rannsóknarblaðamaður skotinn úti á götu í Amsterdam

Árni Sæberg skrifar
Af vettvangi í Amsterdam í kvöld.
Af vettvangi í Amsterdam í kvöld. EPA/EVERT ELZINGA

Peter R. de Vries, þekktur hollenskur blaðamaður, var skotinn úti á götu í Amsterdam í kvöld. De Vries er hvað helst þekktur fyrir fréttir sínar af sakamálum í Hollandi.

Peter R. de Vries liggur þungt haldinn á spítala eftir skotárásina. Myndband tekið á vettvangi sýnir Peter liggja hreyfingarlausan á götunni. Af myndbandinu að dæma virðist hann hafa verið skotinn í höfuðið. 

Hann hafði komið fram í spjallþættinum RTL Boulevard skömmu áður hann var skotinn.

„Fórnarlambið sem skotið var á Lange Leidsedwarsstraat var flutt þungt haldið á spítala,“ segir í tilkynningu lögreglunnar í Amsterdam en ekkert hefur verið gefið út nánar um líðan Peters.

Lögreglan segir að þrír hafi verið handteknir í tengslum við málið, meðal þeirra er sá sem grunaður er um skotárásina.

Famke Halsema, borgarstjóri Amsterdam, segir að Peter berjist fyrir lífi sínu á spítala og að hún fordæmi árásina.

Mark Rutte, sitjandi forsætisráðherra Hollands, hélt blaðamannafund í kvöld þar sem hann sagði frjálsa blaðamennsku vera nauðsynlega samfélaginu. „Hugsanir okkar eru hjá ástvinum Peters R. de Vries. Það mikilvægasta: Við vonum og biðjum fyrir að hann lifi af,“ sagði hann.

Peter R. de Vries er einn þekktasti rannsóknarblaðamaður Hollands en hann hefur á ferli sínum fjallað um mál á borð við mannránið á bjórjöfrinum Freddy Heineken árið 1983 og hvarf Natalee Holloway árið 2005.

Þá hefur hann starfað mikið innan réttarkerfisins sem ráðunautur og málsvari þeirra sem minna mega sín.

Undanfarið hefur hann starfað sem ráðgjafi Nabils B, vitnis í máli á hendur Ridouan Taghi, meintum eiturlyfjabarón.

Lögmaður Nabils B, Dirk Wiersum, var ráðinn af dögum í september 2019.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.