Erlent

Ræða hvort taka skuli tillit til tilfinninga dýra

Kjartan Kjartansson skrifar
Sum dýr eru jafnari en önnur í frumvarpinu um velferð dýra sem liggur fyrir breska þinginu. Það nær aðeins til hryggdýra en sumir þingmenn vilja að það nái einnig til sumra hryggleysingja.
Sum dýr eru jafnari en önnur í frumvarpinu um velferð dýra sem liggur fyrir breska þinginu. Það nær aðeins til hryggdýra en sumir þingmenn vilja að það nái einnig til sumra hryggleysingja. Vísir/EPA

Breskir þingmenn rökræða nú um hvort að rétt sé að taka tillit til tilfinninga dýra þegar menn setja sér lög og reglur. Frumvarp þessa efnis er sagt ganga enn lengra en Evrópulög sem eru talin ganga hvað lengst í þá átt í heiminum.

Frumvarpið um velferð og tilfinningar dýra legði þær skyldur á herðar allra breskra ríkisstofnana að taka tillit til tilfinninga dýra þegar lög eru samin og reglur settar. Það er í samræmi við kosningaloforð Boris Johnson forsætisráðherra um að lögfesta að dýr séu vitsmunaverur sem stjórnvöld verði að gefa gaum.

Villt dýr jafnt sem hús- og gæludýr nytu verndar laganna verði þau samþykkt, að sögn Washington Post. Frumvarpið nær aðeins til hryggdýra eins og spendýra, fugla, skriðdýra, froskdýra og fiska. Líklegt er þó að breytingar verði gerðar á því þannig að það nái einnig til kolkrabba, krabba og skyldra tegunda en andstaða gegn þeirri venju að sjóða lifandi humra er sögð fara vaxandi á meðal bresks almennings.

Þá yrði komið á fót sérfræðinganefnd sem færi ofan í kjölinn á ákvörðunum stjórnvalda til að tryggja að þau hafi tekið tillit til velferðar dýra.

Andstæðingar frumvarpsins halda því fram að lögin yrðu þung í vöfum og auka skrifræði stjórnvalda og að þau séu runnin undan rifjum grænkera og róttækra dýraverndunarsinna.

Donald Broom, vísindamaður sem rannsakar dýravelferð við Cambridge-háskóla, segir bandaríska dagblaðinu að vísindalegum rannsóknum á vitsmunum, meðvitund og tilfinningum dýra hafi fleygt fram á undanförnum árum. Í ljós hafi komið að dýr séu gædd ýmsum eiginleikum sem talið var að menn byggju einir yfir, þar á meðal notkun á verkfærum og tungumáli, tímaskyn, blekkingum, samúð og náungakærleik.

Menn og dýr séu þannig merkilega lík. Broom segir að skynug dýr séu „einstaklingar sem upplifa sársauka og þjáningar og alls konar aðra hluti og það ætti að taka tillit til þess.“ Hann sé ekki mótfallinn því að menn borði dýr eða nýti þau en að hugsa ætti um dýrin sem einstaklinga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×