Enski boltinn

Leggja allt kapp á að halda Harry Kane

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Kane hefur gefið út að hann vilji yfirgefa Tottenham en félagið er ekki tilbúið að hleypa honum svo glatt í burtu.
Harry Kane hefur gefið út að hann vilji yfirgefa Tottenham en félagið er ekki tilbúið að hleypa honum svo glatt í burtu. EPA-EFE/Ettore Ferrari

Fabio Paratici, nýráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá enska knattspyrnufélaginu Tottenham Hotspur, segir félagið leggja allt kapp á að helda enska landsliðsframherjanum Harry Kane innan sinna raða.

Undir lok síðasta tímabils staðfesti hinn 27 ára gamli Kane að hann vildi yfirgefa Tottenham. Manchester City ku nú þegar hafa boðið 100 milljónir punda í leikmanninn en því var hafnað. 

Kane virtist sáttur með að vera áfram í Lundúnum þegar José Mourinho var knattspyrnustjóri liðsins en Mourinho er nú haldinn til Rómarborgar og Nuno Espírito Santo er tekinn við Spurs.

„Það er ekki aðeins markmið mitt heldur okkar sem félags,“ sagði Paratici í viðtali við Sky um að halda Kane hjá félaginu.

„Ég get ekki beðið að sjá hann spila með eigin augum. Ég hef séð mikið af topp leikmönnum í gegnum tíðina og hann er einn albesti framherji í heimi um þessar mundir. Hann er hinn fullkomni leikmaður, mjög sérstakur,“ sagði Paratici sem starfaði lengi vel fyrir Juventus og veit því sitthvað um frábæra framherja.

Hann hélt áfram að ausa lofi yfir Kane, sagði hann vera með líkamsbyggingu eins og alvöru framherji, gæti skotið með báðum fótum og lagt upp mörk þar sem hann væri liðsmaður.

„Ég hef ekki enn heyrt í honum persónulega þar sem ég vil ekki trufla menn sem eru á Evrópumótinu, það er ekki sanngjarnt. Þeir eru að einbeita sér að landsliðsmarkmiðum sínum,“ sagði Paratici að lokum í viðtali við Sky Sports.

Tottenham mætir Manchester City í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í haust. Forvitnilegt verður að sjá hvaða lit Kane klæðist í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×